„Sorglegt að hugsa til fólksins“

Karl Gauti Hjaltason, fyrrum þingmaður Miðflokksins.
Karl Gauti Hjaltason, fyrrum þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, segir sorglegt að Birgir Þórarinsson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, hafi ákveðið að skilja við flokkinn og kennir í brjósti um fólkið sem lagði hart að sér í kosningabaráttunni í Suðurkjördæmi.

Óskiljanlegt að hann hafi boðið sig fram

„Miðað við yfirlýsingu hans þá hefur honum lengi liðið illa í flokknum. Þess vegna er óskiljanlegt að hann hafi farið fram í þessum kosningum og fengið fólk til liðs við sig, til að vinna að kosningunum, og gengið svo í annan flokk tveimur vikum eftir kosningar,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is.

Karl segir Birgi greinilega hafa ákveðið að ganga úr flokknum fyrir talsvert löngu og því sé sorglegt að hugsa til fólksins sem lagði hart að sér fyrir kosningarnar í Suðurkjördæmi.

„Mér finnst sorglegt að hugsa að fólksins sem opnaði kosningaskrifstofur, bakaði kökur og tók á móti fólki og stóð vaktina í kjördæminu þar sem þetta virðist ekki vera nýtt hjá honum. Hann hefur greinilega lengi verið á þessum buxum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina