Vita ekki hvort Erna fylgi Birgi

Birgir Þórarinsson og Erna Bjarnadóttir.
Birgir Þórarinsson og Erna Bjarnadóttir. Samsett mynd

Skrifstofa Alþingis veit ekki hvort Erna Bjarnadóttir, fyrsti varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, muni fylgja Birgi Þórarinssyni yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að Birgir hefði sagt skilið við flokkinn.

„Skrifstofa Alþingis hefur ekki þær upplýsingar,“ segir í svari Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra þingsins, við fyrirspurn mbl.is um hvort Erna fylgi Birgi á milli flokkanna.

Aðspurð bendir hún á að varaþingmenn færist ekki sjálfkrafa á milli flokka ef aðalmaður skiptir um flokk.

„Öflugur varamaður“

Birg­ir sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið að hann hefði ráðfært sig við trúnaðar­menn Miðflokks­ins í Suður­kjör­dæmi áður en hann lét af því verða að ganga til liðs við sjálf­stæðis­menn.

Þar á meðal við Ernu, sem er annar maður á lista Miðflokks­ins í Suður­kjör­dæmi og vara­maður hans á þingi.

„Það er öflugur varamaður, sem ég er með og hún [Erla Bjarnadóttir] styður mig í þessari ákvörðun,“ sagði Birgir.

Ekki hefur náðst í Ernu í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Kaldar kveðjur

Birgir hefur fengið kaldar kveðjur frá sínum gömlu félögum í Miðflokknum eftir ákvörðun hans um að yfirgefa flokkinn og færa sig yfir í þingflokk Sjálfstæðisflokksins, sem Morgunblaðið greindi frá í morgun.

Fyrrum samflokksmenn segja ákvörðunina svik við kjósendur en þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka Birgi opnum örmum.

Ekki er hægt að segja að tilfærsla manna milli flokka sé algeng svona stuttu eftir kosningar, segir Ragna innt eftir því.

Miðflokkurinn heldur stöðu sinni sem þingflokkur þrátt fyrir ákvörðun Birgis …
Miðflokkurinn heldur stöðu sinni sem þingflokkur þrátt fyrir ákvörðun Birgis um að yfirgefa flokkinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðflokkurinn áfram með þingflokk

Við tilfærslu Birgis tapar þingflokkur Miðflokksins einfaldlega einum þingmanni á meðan þingflokkur Sjálfstæðisflokksins bætir við sig einum þingmanni.

Þetta breytir ekki stöðu Miðflokksins sem þingflokks, að sögn Rögnu.

Vísar hún í 85. lagagrein um þingsköp Alþingis en þar segir:

„Skipi þingmenn sér í þingflokka skulu þeir velja sér formann er komi fram fyrir þeirra hönd
gagnvart forseta og öðrum þingflokkum og þingmönnum.
[Í þingflokki skulu vera a.m.k. þrír þingmenn. Tveir þingmenn geta þó myndað þingflokk
enda sé til þingflokksins stofnað þegar að loknum kosningum og þingmennirnir kosnir á listum sama stjórnmálaflokks eða sömu stjórnmálasamtaka.
Enginn þingmaður má eiga aðild að fleiri en einum þingflokki.]“

Aðspurð segir Ragna fjárframlög til þingflokkanna tveggja koma til með að breytast við tilfærslu Birgis á milli þingflokka og að það sé í samræmi við reglur um greiðslu framlaga til þingflokka.

„Áhrifin eru einhver en tæpast stórvægileg.“

mbl.is