„Allir hjartanlega sammála“ um að fá Birgi

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var samstiga í þeirri ákvörðun sinni að taka Birgi Þórarinsson, fyrrum þingmann Miðflokksins inn í Sjálfstæðisflokkinn, að sögn Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. 

„Hann kom til okkar og leitaði eftir því að vera hluti af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Eftir að hafa farið með honum yfir stöðuna, um það hvernig þessi flokkur er og hvernig við vinnum og svo fram vegis var hann ákveðinn í því að leita eftir aðild að þingflokknum,“ sagði Jón í Silfrinu á RÚV í dag.

„Hann var samþykktur þar inn án mikillar umræðu. Það voru allir hjartanlega sammála um það og bjóða hann velkominn í okkar hóp. Við væntum alls góðs af samstarfi við hann.“

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðeins nokkrum atkvæðum munaði á Birgi og Hólmfríði

Birgir var kjörinn inn á þing fyrir Miðflokkinn en tilkynnti það í Morgunblaðinu í gær að hann væri kominn yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Það kom ýmsum á óvart og öðrum ekki. Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna er í þeim hópi sem bjóst ekki við þessu útspili Birgis.

„Auðvitað kemur þetta mjög á óvart svona strax eftir kosningar,“ sagði Bjarni sem benti á að það hefði einungis munað sjö til átta atkvæðum á Birgi í Suðurkjördæmi og Hólmfríði Árnadóttur hjá Vinstri grænum. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigi að segja af sér

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vill sjá Birgi segja af sér. Hennar skoðun er sú að ef þingmenn vilja ekki lengur vera í þeim flokki sem þeir voru kjörnir á þing fyrir ættu þeir einfaldlega að hætta á þingi og hleypa næsta þingmanni inn.  Sjálf missti Inga tvo þingmenn til Miðflokksins á síðasta kjörtímabili þegar þeir voru reknir úr Flokki fólksins eftir Klaustursmálið. 

„Mér finnast þetta vera ótrúleg óheilindi gagnvart kjósendum. Ef sá góði maður Birgir Þórarinsson hefði sagt fólki það fyrir kjördag að atkvæði greitt honum yrði atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er ég ekki alveg viss um að hann væri kjördæmakjörinn,“ sagði Inga.

Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Tilefni til að skoða afleiðingar núverandi fyrirkomulags

Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, sagði málið vera tilefni til þess að „staldra við og skoða afleiðingar þessara laga eins og þau eru núna.“

„Eitt er að þingmenn nýti rétt sinn til þess að skipta á milli flokka á miðju kjörtímabili eða þegar liðið er á kjörtímabilið og það kemur upp einhver ágreiingur eða þeim þykir þeirra eigin flokkur hafa vikið frá þeirri stefnu sem lagt var upp með í kosningum. Þegar þetta eru einhverjar óuppgerðar persónulegar sakir, eins og ég skil þessa atburðarás, þá er þetta kannski farið að vinna gegn upphaflegum markmiðum, því að þingmenn séu frjálsir að vinna að sínum málefnum,“ sagði Hanna Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina