Ekki víst að Birgi verði treyst

Stefán Pálsson sagnfræðingur.
Stefán Pálsson sagnfræðingur. mbl/Arnþór Birkisson

Til eru fordæmi fyrir því að kjörnir þingmenn skipti um flokk en það gerist þó oftast eftir átök innan flokka og vanalega verða þingmenn óháðir í einhvern tíma. Þetta segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og stjórnmálaáhugamaður, í samtali við blaðamann mbl.is.

Stefán segir stjórnmálaáhugafólk alvant því að fólk skipti um flokka en mál Birgis Þórarinssonar sé óvenjulegt.

„Það sem er óvenjulegt við þetta er hvað þetta gerist snemma og án mikils opinbers aðdraganda eða átyllu. Yfirleitt skipta menn um flokk í kjölfar átaka.“

Hann bætir því við að vanalega þegar þingmenn skipta um flokk byrji þeir á að segja sig úr sínum gamla flokki og verji svo einhverjum tíma sem þingmenn utanflokka áður en þeir fara í annan flokk.

Þá segist Stefán ekki muna eftir dæmi þar sem stjórnmálaflokkar hafi afþakkað mögulegar viðbætur, þeir hafi þá allavega ekki gert það opinberlega.

Ætti að vera skýrt fyrir hvern menn eru kosnir

„Frægt dæmi sem kemur upp í hugann er þegar Ingibjörg H. Bjarnason var fyrsta konan sem kjörin var á Alþingi. Hún var kosin fyrir hönd Kvennalistans gamla en kom svo mörgum sinna stuðningskvenna mjög í opna skjöldu þegar hún sest í þingflokk Íhaldsflokksins árið 1922. Hún var í raun aldrei fulltrúi þess flokks sem kaus hana inn. Hún svaraði því þannig að möguleikar hennar til að hafa áhrif væru litlir þar sem hún var ein í þingflokki og gerði þetta til að vinna að sínu helsta baráttumáli sem var Landsspítalamálið.“

Þá segir Stefán að það verði að hafa í huga að stjórnmálin hafa breyst og því sé samanburður við eldri mál erfiðari.

„Á fyrri hluta 20. aldar voru stjórnmálaflokkar og þingflokkar mun laustengdra fyrirbæri en þeir eru í dag. Það voru einmenningskjördæmi út um allt land. Frambjóðendur voru mjög mismerktir einstaka hreyfingum. Því kom oft ekki í ljós, fyrr en þingið kom saman, nákvæmlega hvernig menn myndu skipta sér í fylkingar. Eftir að flokkakerfið varð fastara í sessi, frá og með kreppuárunum, þá hefur þetta vera nokkuð skýrt fyrir hvern menn eru kosnir á þing.“

Þingmenn sem skipta um flokk ekki treyst

Stefán segir söguna benda til þess að þingmönnum sem skipti um flokka sé ekki treyst.

„Sagan er ekki hliðholl þeim mönnum sem fara þessa leið. Þó þú sért boðinn velkominn þegar þú kemur færðu það oft í hausinn þegar horft er til lengri tíma, að þú hefur hvorki sömu ræturnar né sama baklandið og átt erfitt með að virkja einhverja kosningavél þegar kemur að prófkjöri.“

Nefnir hann Jón Magnússon og Gunnar Örlygisson, sem gengu báðir til liðs við Sjálfstæðisflokkinn úr Frjálslynda flokknum, en féllu svo síðar í prófkjöri flokksins. 

Spurður hvort hann haldi að Birgir eigi möguleika á velgengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu alþingiskosningar bendir Stefán á að hann sé í Suðurkjördæmi og Sunnlendingar hafi kosið yfir sig stjórnmálamenn sem mætti efast um að myndu njóta velgengi á  höfuðborgarsvæðinu.

Flokkshestarnir ráði förum

„Oft er upplifun þeirra sem fyrir eru í stjórnmálastarfi að þegar það kemur utanaðkomandi fólk, sem á að vera tekið með kostum og kynjum, þá situr það oft í flokkshestunum eða þeim hafa farið hefðbundnu leiðina til að vinna sig upp í flokknum. Þá finnst þeim eins og verið sé að taka fram úr sér.“

Sem dæmi nefnir Stefán ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og félagsmálaráðherra, að færa sig í Reykjavíkurkjördæmi norður en hann var áður oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi. Ásmundur kom til Framsóknar úr Vinstri Grænum.

„Maður fékk á tilfinninguna að honum hafi verið stuggað til Reykjavíkur vegna þess að einhverjir fæddir og uppaldir framsóknarmenn hafa litið svo á að hann væri aðkomuskepna.“

Þá nefnir Stefán vonir Rósu Bjarkar um að fá oddvitasæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi en hún hafði áður verið þingmaður Vinstri Grænna. Rósa fékk ekki oddvitasæti og endaði hún á að þiggja annað sæti, í Reykjavíkurkjördæmi suður, sem hún hafði áður hafnað. 

„Ég held að þetta hafi ekki bara með það að gera hvort frjálslynd eða íhaldssöm sjónarmið séu ofan á. Í öllu félagsstarfi getur maður skapað sér óvild annarra ef fólk upplifir að þú sért að troðast fram fyrir í röð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina