Kalla Hafstein Þór fyrir undirbúningsnefndina

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa heldur opinn fund klukkan 10:30 í dag þar sem fundað verður um undirbúning fyrir rannsókn kjörbréfa. 

Gestur fundarins verður Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Fundurinn verður haldinn í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8–10 og verður opinn fulltrúum fjölmiðla og almenningi meðan húsrúm leyfir. 

Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi á mbl.is og verður sömuleiðis greint frá honum á mbl.is. 

Hafsteinn fari yfir breiðu línurnar

Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar kveðst ætla að fundurinn taki um það bil tvo klukkutíma.

Hafsteinn Þór Hauksson mun sögn Birgis mun fara yfir „breiðu línurnar varðandi þau stjórnskipulegu viðfangsefni“ sem nefndin fæst nú við.

„Í framhaldi munum við fara yfir stöðuna fyrir gagnaöflun, sem við höfum þegar sett af stað, og athuga að hvaða leyti við þurfum að fylla inn í með því að bæta við beiðnum eða óskum um minnisblöð eða annað þess háttar,“ segir Birgir í samtalið við Morgunblaðið. 

Ómögulegt sé að segja til um hve marga fundi þurfi til að vinna málið en búið sé að skipuleggja fundi á miðvikudag og föstudag.

„Við erum að reyna að vinna þetta hratt en þó þurfum við auðvitað að gæta þess að safna þeim upplýsingum sem að gagni geta komið við að greiða úr þessu máli og við erum einfaldlega bara á þeim stað í vinnunni núna að afla frekari gagna.“ 

mbl.is