Fengu tólftu kæruna og óska eftir lögreglugögnum

Nefndin kom saman í dag og fór yfir gagnaöflun í …
Nefndin kom saman í dag og fór yfir gagnaöflun í málinu, hvaða gögn lægju fyrir og hvað vanti upp á. Unnur Karen

Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hefur óskað eftir gögnum frá lögreglunni á Vesturlandi varðandi endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi, en rannsókn lögreglu lauk í gær og er málið nú til meðferðar á ákærusviði sem tekur ákvörðun um framhaldið. 

Nefndin kom saman í dag og fór yfir gagnaöflun í málinu, hvaða gögn lægju fyrir og hvað vanti upp á.

Þá var tekin ákvörðun um að óska eftir gögnum frá lögreglu sem kunna að nýtast við mat á lögmæti kosninganna, að því gefnu að lögreglan geti afhent þau. Birgir Ármannson, formaður nefndarinnar, vildi ekki fara í einstök atriði.

Tólf kærur, ekki allar vegna Norðvesturkjördæmis

Tólfta kæran barst kjörbréfanefnd í dag, að sögn Birgis. Sú kæra var frá kjósanda.

Sjö kærur hafa borist alls frá kjósendum og fimm frá frambjóðendum, þeim sem misstu sæti sitt á þingi við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.

Kærufrestur eru fjórar vikur frá útgáfu kjörbréfa, sem var þann 1. október, og því kann enn að bætast í hóp kærenda næstu daga.

Þó flestar kærurnar lúti að ágöllum í Norðvesturkjördæmi eru einhverjar sem snúa að öðrum þáttum og mun nefndin leggja mat á öll þessi atriði efnislega þegar gagnaöflun er lokið, en hún er enn í fullum gangi.

Birgir vonast eftir því að lögregla verði búin að afhenda gögnin á föstudag en þá mun nefndin koma saman á ný, fara yfir ýmis lögfræðileg atriði og undirbúa störf næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert