Lögreglan ekki enn afhent gögnin

Frá fundi undirbúningsnefndarinnar í vikunni. Birgir fyrir miðju.
Frá fundi undirbúningsnefndarinnar í vikunni. Birgir fyrir miðju. mbl.is/Unnur Karen

Lögreglan á Vesturlandi hefur ekki afhent undirbúningsnefnd kjörbréfa nein gögn sem varða endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi. Birg­ir Ármann­sson, formaður nefnd­ar­inn­ar, segir í samtali við mbl.is að nefndin hafi óskað eftir því að fá gögnin afhent fyrir lok dags í dag.

Þau svör bárust frá lögreglunni á Vesturlandi, þegar blaðamaður sló á þráðinn á þriðja tímanum í dag til að spyrjast fyrir um málið, að allir sem gætu svarað fyrir það væru farnir heim.

„Það er bara enginn í húsi. Nú er bara dagurinn búinn hjá okkur. Þetta verður bara að bíða fram eftir helgi,“ voru svörin sem blaðamaður fékk frá skiptiborðinu.

Borgarnes, þar sem talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi fór fram.
Borgarnes, þar sem talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi fór fram. mbl.is/Sigurður Bogi

Til meðferðar á ákærusviði

Ákveðið var á fundi nefndarinnar á miðvikudag að óska eft­ir gögn­um frá lög­reglu sem kunna að nýt­ast við mat á lög­mæti kosn­ing­anna, að því gefnu að lög­regl­an geti af­hent þau. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í vikunni lauk rannsókn lög­reglu á þriðjudag. Er málið nú til meðferðar á ákæru­sviði sem tek­ur ákvörðun um fram­haldið. 

Skiptir máli að fá gögnin frá lögreglu

Birgir segir í samtali við mbl.is að nefndin sé þessa dagana að viða að sér gögnum til að geta tekið næstu skref.

Þá muni um það að fá gögnin frá lögreglunni.

„Það skiptir svolítlu máli fyrir okkur að vita hvaða upplýsingar við getum fengið frá lögreglu, upp á það að vita hvaða upplýsingar það eru sem við þurfum að afla sjálfstætt.“

Nefndin kemur aftur saman til fundar á mánudaginn, þar sem fyrirhugað er að fara yfir fyrirliggjandi gögn og ákveða næstu skref í framhaldinu.

mbl.is