Ekki hægt að styðjast við tölur „út frá lögbroti“

Karl Gauti Hjaltason var þingmaður Miðflokksins á síðasta kjörtímabili.
Karl Gauti Hjaltason var þingmaður Miðflokksins á síðasta kjörtímabili. mbl.is/Eggert

Karl Gauti Hjaltason, sem kærði framkvæmd alþingiskosninga í Norðvesturkjördæmi til lögreglu, segir sektargerð lögreglu á hendur yfirkjörstjórn kjördæmisins marka vatnaskil í málinu. Hann telur ekki lengur hægt að byggja á gögnum úr kjördæminu. 

Lögregla bauð öllum í yfirkjörstjórn kjördæmisins að ljúka málinu með greiðslu sektar fyrir meðferð kjörgagna. Dyr í talningasal á Hótel Borgarnesi stóðu ólæstar á meðan kjörgögn lágu þar inni óinnsigluð áður en talningin var endurtekin degi eftir fyrstu talningu.

Ekki hægt að líta fram hjá refsiverðu broti

„Það er ekki nokkur leið að byggja á gögnum sem hafa verið unnin með ólögmætum hætti. Það er ekki hægt að líta fram hjá því þegar um refsivert brot er að ræða í umgegni um kjörgögn eins og þarna er staðfest. Það er ekki nokkur leið að ætla sér að fara að byggja á því, það get ég ekki ímyndað mér að nokkrum detti í hug.“

Karl kveðst ánægður með störf kjörbréfanefndarinnar hingað til og sýnist hún vanda til verka. Hann kallar samt sem áður eftir meira gagnsæi og að nefndin opinberi þau gögn sem hún hafi til rannsóknar:

„Sérstaklega þau sem hún hefur frá lögreglu. Ég er að bíða eftir að þau verið gerði opinber svo almenningur geti séð hvað þeir eru með til að geta gert sér grein fyrir vinnunni. Mér finnst óþarfi að leyna þessu. Þetta er eitthvað sem lögreglan matar í þau og ef þau eru ekki sérstaklega merkt sem trúnaðargögn ætti að birta þau fyrir almenning.“

Karl segir niðurstöðu lögreglu benda til þess seinni talningin sé marklaus: „Menn geta ekki stuðst við tölur sem komnar eru til út frá lögbroti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert