Bara vondar lausnir á borðinu

Vettvangsferð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa.
Vettvangsferð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. mbl.is/Theódór Kr. Ólafsson

Willum Þór Þórsson, sitjandi forseti Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins segir að líta megi til viðmiða eins og kærufrests sem rennur út n.k. föstudag þegar ákvarðað er hvenær kjörbréfanefnd eigi að skila niðurstöðu um lögmæti framkvæmd Alþingiskosninga í norðvesturkjördæmi. 

Í Silfrinu í dag tók hann þó fram að nefndin þyrfti að fá þann tíma sem hún þyrfti til þess að fara ofan í kjölinn á málinu sem væri umfangsmikið. 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, situr í nefndinni. Hann sagði að ljóst væri að á tímabili hafi kjörgögn í kjördæminu ekki verið örugg. Ákveðnar tilgátur séu þó um að þau hafi verið það. Þá sé ekki ljóst hversu miklir ágallar þurfi að hafa verið á framkvæmdinni til þess að komi til uppkosningar. 

Getur hvorki sagt af eða á um kosningasvindl

Er eitthvað sem bendir til þess að svindlað hafi verið í kosningunum?

„Ég er ekki komin með staðfestingu um neitt slíkt,“ sagði Björn Leví og bætti því við að hvorki væri hægt að segja af eða á í þeim efnum. 

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði að það væru eiginlega bara vondar lausnir á borðinu.

„Eftir því sem lengra dregur frá kosningum verpður þetta þyngra, finnst mér, vegna þess að það koma fleiri álitamál upp,“ sagði Helga.

„Mér finnst þetta mjög alvarlegt vegna þess að þetta hefur svo víðtæk áhrif. Engin lausnanna sem eru uppi á borðinu er góð. Við erum alltaf með vondar lausnir á borðinu fyrir framan okkur.“

mbl.is