Kæra borist kjörbréfanefnd vegna Birgis

Birgir Þórarinsson.
Birgir Þórarinsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa hefur borist kæra þar sem þess er krafist að Alþingi ógildi kosningu Birgis Þórarinssonar og staðfesti ekki kjörbréf hans. Í staðinn verði landskjörstjórn falið að gefa út kjörbréf til handa Ernu Bjarnadóttur, frambjóðanda Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Birgir var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn í síðustu kosningum en skömmu síðar gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Fram kemur í kærunni að kjósendur Miðflokksins í Suðurkjördæmi hafi keypt köttinn í sekknum því Birgir gat þess hvergi í aðdraganda kosninganna að unnið væri gegn honum innan flokksins eða hann teldi sig ekki eiga samleið með öðrum oddvitum flokksins.

„Flestir hljóta að vera sammála um að það sé bæði óheiðarlegt og ólýðræðislegt að villa á sér heimildir í kosningum til Alþingis. Ef kjörbréfanefnd og Alþingi sjálft lætur svindl sem þetta óátalið þrátt fyrir heimildir í lögum má reikna með að fleiri slíkar uppákomur eigi sér stað í komandi kosningum. Þetta væri ömurlegt fordæmi og alls ekki til þess fallið að auka tiltrú fólks á störfum Alþingis og leikreglum lýðræðisins,“ segir í kærunni og bætir kærandi því við að athæfi Birgis hafi verið bæði ámælisvert og ósiðlegt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina