Reikningsskekkja á Ísafirði

Undirbúningsnefnd við rannsókn kjörbréfa á fundi.
Undirbúningsnefnd við rannsókn kjörbréfa á fundi. mbl.is/Unnur Karen

Greiddum atkvæðum í alþingiskosningunum í Norðvesturkjördæmi fjölgaði um tvö vegna mistaka sem urðu þegar kjósandi var staddur í kjörklefa á Ísafirði á kjördag um það leyti sem skipti á atkvæðakassa stóðu yfir.

Að því er fram kemur í drögum að málsatvikalýsingu undirbúningskjörnefndar vegna framkvæmdar kosninganna í Norðvesturkjördæmi kemur fram að kjósandi hafi sett atkvæði í kjörkassa og þá var einum fleiri atkvæðaseðlar í kassanum en bókhald kjörstjórnar sagði til um. 

„Þegar atkvæðakassinn kom til talningar í Borgarnesi hafi starfsmaður yfirkjörstjórnar, í stað þess að leggja aukaatkvæðaseðilinn við bókhaldið (17.667+1=17.668), dregið það frá bókhaldinu (17.667-1=17.666),“ segir orðrétt í drögum að málsatvikalýsingu.

Ástæður þessarar reikningsskekkju komu ekki í ljós fyrr en eftir hádegið sunnudaginn 26. september; daginn eftir kosningarnar. Enn fremur kemur fram að nefndin hafi fengið þetta staðfest með athugun á bókunum kjörstjórnar í gerðabók 1. kjördeildar á Ísafirði.

Auð atkvæði reyndust ógild

Til skýringar á breytingum á auðum og ógildum seðlum milli fyrri og seinni talningar hefur einn fulltrúi yfirkjörstjórnar sagt á fundi með nefndinni að tólf atkvæði sem talningarfólk hafði talið sem auð atkvæði hafi í raun reynst ógild. Talningarfólk hafi þarna eingöngu horft á framhlið þessara atkvæðaseðla og þar hafi seðlarnir verið auðir en á bakhlið þessara kjörseðla hafi verið búið að krota.

Við skoðun undirnefndar undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa á auðum og ógildum atkvæðaseðlum á lögreglustöðinni í Borgarnesi 26. október 2021 mátti sjá 12 ógilda kjörfundarseðla með merkingum eingöngu á bakhlið seðilsins, segir í drögunum.

Í töflu hér að neðan má sjá niðurstöður um atkvæðafjölda hvers framboðslista í Norðvesturkjördæmi í fyrri og seinni talningu ásamt breytingum sem urðu milli talninga.

Ljósmynd/Vefur Alþingis
mbl.is

Bloggað um fréttina