Ráðuneytaskipan enn rædd

Formenn stjórnarflokkanna þriggja, Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi …
Formenn stjórnarflokkanna þriggja, Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn eru ýmis mál óútkljáð hjá stjórnarflokkunum, en það kann að velta nokkuð á þeim hvernig um semst um verkaskiptingu í ríkisstjórn, hvaða flokkar sinni hvaða málaflokkum. Enn eru uppi ýmsar hugmyndir um tilfutning verkefna milli ráðuneyta og mögulega stofnun nýrra ráðuneyta, en ekkert frágengið í þeim efnum nema stofnun nýs innviðaráðuneytis.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Að þeim málum frátöldum er stjórnarsáttmálinn svo að segja frágenginn, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins meðal stjórnarliða. Þar mun að öðru leyti lítið vera eftir nema prófarkalestur, kommusetning og snurfus eins og einn stjórnarþingmaður orðaði það.

Engir fundir voru með formönnum stjórnarflokkanna í gær, enda eiga allir ráðherrarnir fleiri erindum að sinna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun meðal annars hafa nýtt tímann til þess að ráðfæra sig við sitt fólk um það sem út af stendur. Þingmaður Vinstri grænna vildi þó ekki gera of mikið úr því og sagði að það væru einfaldlega hefðbundnar samningaviðræður fremur en stórar deilur; engum ætti að koma á óvart að svo ólíkir flokkar hefðu ólíka sýn á ýmis mál.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók í sama streng, það væru fáeinir lausir endar eftir, en þá þyrfti að samt hnýta. „Það er lítið eftir, en það eru samt atriði sem geta skipt máli, sem þarf að klára.“

Nefnt var að „erfið mál“ á borð við rammaáætlun, orkumál, loftslagsmarkmið og annað slíkt hefðu tekið mikinn tíma, en að formennirnir hefðu sætt sig við að það yrði ekki allt leyst í samtali á nokkrum dögum. Á milli þeirra væri nauðsynlegt traust til þess að leysa málin í samræmi við stórar línur, sem þeir væru sammála um. Þar gæti einnig hjálpað til að koma málum á hreyfingu með því að gera breytingar í ríkisstjórn, færa fólk til og skipta verkefnunum upp með nýjum hætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert