Jón Þór kærir talninguna til lögreglu

Jón Þór Ólafsson.
Jón Þór Ólafsson. mbl.is/​Hari

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hefur kært talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi til lögreglu.

Í kæru Jóns Þórs, sem var umboðsmaður Pírata í kosningunum í september, segir meðal annars að mögulega hafi málsatvik í fundargerðum gerðarbókar Norðvesturkjördæmis verið fölsuð. Þar að auki segir að síðari talning í kjördæminu hafi ekki verið í samræmi við lög.

Í kærunni byggir Jón Þór meðal annars á málsatvikalýsingu undirbúningskjörbréfanefndar, sem lauk störfum á mánudag. Þannig segir hann að misræmi sé í þeirri lýsingu, sem byggð er á gögnum frá fólki sem að talningunni kom, og þeim lýsingum og skýringum sem Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, hefur gefið.

Hann segir meðal annars að Ingi hafi verið einn með óinnsigluðum atkvæðum í rúman hálftíma og að ein mínúta dugi til þess að rangfæra atkvæðaseðla með strokleðri og blýanti.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

Talningin áður verið kærð til lögreglu

Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, hefur áður kært framkvæmd talningar í kjördæminu til lögreglunnar. Því máli lauk með sektargerðum til allra meðlima yfirkjörstjórnar.

Sektargerðin í garð Inga Tryggvasonar formanns nam 250 þúsund krónum en sektargerðir til annarra stjórnarmanna 150 þúsund krónum. Ekki er vitað til þess hvort sektirnar voru greiddar, en heimildamenn mbl.is töldu ólíklegt að svo yrði gert þegar fyrst voru fluttar fréttir af sektargerðunum.

Það sem er frábrugðið kæru Jóns Þórs og Karls Gauta er að í kæru þess fyrrnefnda er vísað til málsatvikalýsingar undirbúningskjörbréfanefndar, sem á 37 fundum sínum rannsakaði málið í þaula. Það er því óvíst hvort lyktir þessarar kæru verði aðrar en lyktir kæru Karls Gauta.

Úrslitastundin á morgun

Alþingi kemur saman á morgun eftir, að hlé var gert á fyrsta þingfundi nýs þings á þriðjudag, til þess að kjósa um tillögur kjörbréfanefndar. Einn þriggja tillagna og sú sem meirihluti er fyrir, er að stuðst verði við síðari talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.

Þar fyrir utan er minnihluti flokka á þingi sem líklegt er að kjósi með tillögu nefndarinnar sem gerir ráð fyrir að uppkosning verði haldin í kjördæminu. Óvíst er hvort einhver styðji þriðju tillöguna sem gerir ráð fyrir að atkvæði í Norðvesturkjördæmi verði talin aftur.

Sér á báti eru Píratar, sem telja að kjósa eigi aftur á öllu landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert