Umræðu þörf um bólusetningu

Samstaða í baráttu við kórónuveiruna má ekki koma í veg fyrir nauðsynlega umræðu og rökræðu um ýmsa grundvallarþætti, svo sem snertifleti sóttvarna og mannréttinda. Hún þurfi að eiga sér stað óháð afstöðu til bólusetninga.

Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í viðtali við Dagmál, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem er opið öllum áskrifendum. Þáttinn í heild sinni má nálgast með þvi að smella hér, en þar ræddi hún ásamt Helgu Völu Helgadóttur, þingflokksformanni Samfylkingar, um stjórnmálaviðhorfið.

Hanna Katrín segir góð samstaða með ríkisstjórninni varðandi viðbrögð við heimsfaraldrinum kunni að hafa gert stjórnarandstöðunni erfiðara fyrir í kosningabaráttu. Áhersla á samstöðu þjóðarinnar kunni sömuleiðis að hafa haldið aftur af nauðsynlegri umræðu um ýmis undirstöðuatriði. Tímabært sé að taka þá umræðu nú.

Hún bendir t.d. á ákall um útgáfu bólusetningarvegabréfa til notkunar innanlands, sem þegar er komin upp sums staðar í Evrópu, en hún telur að muni rata hingað til lands innan tíðar.

„Ef að því er ekki svarað strax með rökræðum, þá mun það ákall finna sér leið alla leið upp í æðstu stöður þar sem ákvarðanir eru teknar. Þess vegna segi ég að við verðum að ræða það. Þetta virkar nefnilega svo einfalt, þetta er svo þægilegt.“ Flestir kunni að telja það sjálfsagt að allir séu bólusettir, en það sé ekki þar með útrætt eða sjálfsagt mál.

„Það eru jaðarhópar, alls konar jaðarhópar, sem við verðum að bera virðingu fyrir. Að minnsta kosti nægilega til þess að taka umræðuna,“ segir hún og ítrekar að sú umræða megi ekki skautast af afstöðu fólks til nytsemi bólusetningar.

mbl.is