Bjarni virðir ákvörðun Eyþórs

„Það sem að Eyþór gerði gríðarlega vel var að fá …
„Það sem að Eyþór gerði gríðarlega vel var að fá góða niðurstöðu í síðustu kosningum og ég veit ekki annað en staðan sem hann skilur við er nokkuð sterk.“ mbl.is/Arnþór Birkisson

Ákvörðun Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, var persónuleg og hana ber að virða, að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins. 

Eyþór tilkynnti í gærkvöldi að hann hygðist ekki gefa kost á sér í væntanlegu leiðtogaprófkjöri flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar næsta vor.

Hildur sú eina sem hefur boðið sig fram

„Það sem að Eyþór gerði gríðarlega vel var að fá góða niðurstöðu í síðustu kosningum og ég veit ekki annað en staðan sem hann skilur við er nokkuð sterk,“ segir Bjarni við mbl.is og bætir við:

„Nú verður annar að bera kyndilinn og ég er alveg sannfærður um að sjálfstæðismönnum í Reykjavík hleypur kapp í kinn við þetta og efla sig í að setja saman sterkan lista, góða málefnaskrá og vinna aftur kosningasigur í vor.“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Búist var við að Eyþór og Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi flokksins, myndu berjast um oddvitasætið í leiðtogaprófkjöri á nýju ári. Eins og staðan er núna er hún sú eina sem lýst hefur því yfir að hún sækist eftir að leiða lista sjálfstæðismanna. 

Nokkur kurr hefur verið í sjálfstæðismönnum vegna þeirrar ákvörðunar að halda leiðtogaprófkjör í stað venjulegs prófkjörs. Einhverjir vilja meina að þannig sé verið að ganga framhjá rétti flokksmanna til þess að velja á lista. 

Fyrir síðustu kosningar var einnig haldið leiðtogaprófkjör þar sem Eyþór bar sigurorð af öðrum sjálfstæðismönnum, t.a.m. Kjartani Magnússyni varaþingmanni flokksins og borgarfulltrúa til margra ára, Áslaugu Friðriksdóttur, reyndum borgarfulltrúa, og Vilhjálmi Bjarnasyni, fyrrverandi þingmanni flokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert