Einbeitir sér að fjölskyldunni og fyrirtækjum

Eyþór Laxdal Arnalds í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Eyþór Laxdal Arnalds í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta hafa verið erilsöm ár í borgarstjórninni og það er ekki minni nauðsyn nú en 2018 að koma frá þessum meirihluta með minnihluta atkvæða að baki sér. En ég veit að það verður gríðarlega hörð barátta, sem maður verður að gefa sig allan í. Að vel athuguðu máli komst ég að því að það er einfaldlega meira en ég hef að gefa. Ég hef fjölskyldu að sinna, ég er með fyrirtæki sem ég þarf að gefa mig meira að en ég get meðan ég er í stjórnmálum,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eyþór tilkynnti í gærkvöldi að hann hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér á framboðslista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Eyþór segir í yfirlýsingu sinni að ákvörðunin sé tekin af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. Hann kveðst vera fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn muni vinna góðan sigur í vor. Þá vill hann árétta að ákvörðun þessi sé algjörlega óháð því hvaða fyrirkomulag verði við val á framboðslista flokksins eða hvaða einstaklingar muni gefa kost á sér í því vali.

- Er neistinn farinn?

„Nei, alls ekki. Ég hef ástríðu fyrir stjórnmálum og ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gera Reykjavík að þeirri borg sem Reykvíkingar eiga skilið. Þess vegna rennur manni til rifja að sjá hvernig borgarstjóri og hans fólk vanrækir borgina og sólundar milljörðum til þess að fóðra eigin gæluverkefni meðan grunnverkefni sitja á hakanum,“ segir Eyþór. „En ég verð að hugsa um það sem stendur mér næst: börnin mín, konuna og heimilið, atvinnureksturinn og fólkið sem er að vinna fyrir mig. Þar kemur enginn í minn stað, en í pólitíkinni er enginn ómissandi. Í Sjálfstæðisflokknum er nóg til af fólki sem getur tekið við.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert