Hugmyndin um leiðtogaprófkjör dauð

Hugmyndin um leiðtogaprófkjör hlýtur að vera dauð ef aðeins einn er í framboði, segir Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann dregur mjög í efa að tillaga um það verði samþykkt í fulltrúaráði flokksins í Reykjavík og þykir líklegast að haldið verði venjulegt opið prófkjör.

Þetta kemur fram í viðtali í Dagmálum um stöðu og horfur í Reykjavíkurborg í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Þar mættust þeir Friðjón og Stefán Pálsson, sagnfræðingur og atkvæðamaður í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Dagmál eru streymi á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn í heild sinni má sjá eða hlusta á með því að smella hér.

Framboðsmál sjálfstæðismanna hafa verið í deiglu undanfarnar vikur, en þar hafði stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík upphaflega samþykkt að gera tillögu um almennt prófkjör líkt og skipulagsreglur flokksins gera ráð fyrir. Á öðrum fundi skömmu fyrir jól kom hins vegar óvænt fram tillaga í stjórninni um að leggja til að það prófkjör yrði svokallað leiðtogaprófkjör, þar sem aðeins væri gengið til atkvæða um efsta sætið. Kjörnefnd myndi gera tillögu um skipan annara sæta. Um þá tillögu átti síðan að fjalla á fundi fulltrúaráðsins milli jóla og nýárs, sem síðan var frestað til 5. janúar en þeim fundi var svo einnig frestað vegna veikinda í stjórninni.

Friðjón telur rétt að fram fari almennt prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar, þau hafi jafnan skilað góðum og breiðum listum, en jafnframt nýst vel sem upptaktur í kosningabaráttu. Stefán Pálsson benti á að það væri eilítið broslegt ef svo færi að hverfa þyrftu frá tillögu um leiðtogaprófkjör í að kjósa um allt annað en leiðtogann.

Friðjón minnti á að aukinn meirihluta þyrfti á fulltrúaráðsfundi til þess að samþykkja þá óvenjulegu aðferð, 2/3 fundarmanna þyrftu að ljá henni stuðning. Hann dró mjög í efa að stuðningur væri fyrir því, miklar deilur hefðu verið um tillöguna í stjórninni og athugasemdir gerðar við óvenjulega málsmeðferð.

mbl.is