Útsvarslækkun grundvallarmál á Nesinu

Magnús Örn Guðmundsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi
Magnús Örn Guðmundsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi mbl.is/Árni Sæberg

Það er grundvallarmál að útsvarið á Seltjarnarnesi verði lækkað aftur, segir Magnús Örn Guðmundsson formaður bæjarráðs, sem sækist eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins bænum í kosningum i vor. „Það verður grundvallarmál hjá okkur og helst hönd í hönd við fyrirheit okkar um ábyrgan rekstur sveitarfélagsins,“ segir Magnús í viðtali við Morgunblaðið.

Sem kunnugt er gekk einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna óvænt til liðs við minnihlutann fyrir skömmu og samþykkti tillögu um að hækka útsvarshlutfallið úr 13,70% í 14,09%, Magnús er ómyrkur í máli um þann snúning. „Það var afleitt og þar gekk hann beinlínis gegn loforðum okkar sjálfstæðismanna til kjósenda, sem ég get ekki enn skilið hvernig hann fékk af sér að gera. […] Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að við bjóðum fram samhentan, heiðarlegan og ábyrgan hóp, sem stendur við stóru orðin og vindur ofan af svona mistökum.“

Magnús er í 2. sæti sjálfstæðismanna nú, en Ásgerður Halldórsdóttir, núverandi oddviti og bæjarstjóri, leitar ekki endurkjörs, svo hann sækist eftir 1. sætinu í prófkjöri, sem fram fer laugardaginn 26. febrúar.

Vill leiða listann til kosningasigurs

„Sjálfstæðisflokkurinn þarf augljóslega að styrkja stöðu sína í komandi kosningum. Hann fékk iðulega um og yfir 60% atkvæða í sveitarstjórnakosningum hér áður fyrr en dalaði 2014 og enn meira síðast, þegar það kom fram nýtt framboð, sem segja má að hafi verið klofningsframboð og fékk 10%. – Það er verkefnið nú, að auka fylgið verulega á ný, og ég hef fulla trú að það takist og ég vil leiða þá baráttu.“

Magnús segir í viðtalinu að hið óvænta útspil um hækkun útsvarsins sé óskiljanlegt, því fjárþörfin sé ekki aðkallandi hjá bæjarfélaginu. Í kórónukreppunni hafi vissulega verið á brattann að sækja í fjármálum bæjarins en staðan sé vel viðráðanleg og tilefni til þess að styrkja reksturinn. En er hann í ólagi?

 „Nei, það er ekki þannig,“ segir Magnús. „En það má bæta hann og gera nútímalegri. Við lifum í breyttu þjóðfélagi og eigum að notfæra okkur það. Auðvitað höfum við mörg tækifæri til þess að gera reksturinn skilvirkari og betri. Þau þurfum við að grípa, bæði til þess að bæta þjónustuna og nýta fjármuni bæjarbúa betur.“

Grunnþjónusta, ekki gæluverkefni

Hann undirstrikar þá stefnu sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, að sinna grunnþjónustu vel en láta gæluverkefni vera.

„Það sem við tökum okkur fyrir hendur eigum við að gera vel, helst með framúrskarandi hætti. En við þurfum líka að gæta hófs í verkefnavali, það er ekki þannig að bærinn eigi að vera að vasast í hverju sem er,“ segir Magnús í viðtalinu. „Það sem við gerum, það verðum við að gera af skynsemi, fyrirhyggju og ráðdeild. Við sjáum hvað mörg sveitarfélög hafa lent í ógöngum vegna óvarkárni og jafnvel óráðsíu, en sveitarstjórnarfólk er einmitt kosið til þess að vera eftirlitsmenn með sameiginlegum fjármunum almennings í bænum. – Við verðum að standa undir þeirri ábyrgð, því það er þannig sem við byggjum gott sveitarfélag til framtíðar.“

Viðtalið allt geta áskrifendur lesið með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert