Kristinn sækist eftir 2. sæti

Kristinn Andersen.
Kristinn Andersen. Ljósmynd/Aðsend

Kristinn Andersen, verkfræðingur og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, gefur áfram kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í bænum, en það sæti skipaði hann á framboðslista flokksins í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Fyrir fjórum árum hlaut ég víðtækan stuðning kjósenda í Hafnarfirði í 2. sæti framboðslista okkar sjálfstæðismanna og hef starfað á vettvangi bæjarmála sem forseti bæjarstjórnar og varaformaður bæjarráðs. Ég tel að störf mín á þeim vettvangi hafi verið farsæl, Hafnarfjörður hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum svo eftir hefur verið tekið og höfum við í bæjarstjórn lagt okkar af mörkum til þess. Fjárhagur bæjarfélagsins er aftur orðinn traustur, mannlífið blómstrar og atvinnulíf er öflugt. Ég legg fram krafta mína til að starfa áfram að þessum og öðrum framfaramálum fyrir Hafnfirðinga næstu fjögur árin,“ skrifar Kristinn í færslu á Facebook.

Kristinn lauk doktorsnámi í Bandaríkjunum og hefur starfað bæði þar og hérlendis í atvinnulífinu við tækniþróun og nýsköpun um árabil og er núna prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Þá hefur hann gegnt formennsku Verkfræðingafélags Íslands og sinnt ýmsum félagsstörfum auk áralangrar þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins.

„Ég tel að þessi reynsla mín og bakgrunnur í 2. sæti framboðslistans áfram nýtist vel í störfum bæjarstjórnar og styrki þann hóp sem við bjóðum fram til bæjarstjórnarkosninga næsta vor,“ skrifar Kristinn.

mbl.is