Segir kjarklausan meirihluta ganga gegn vilja íbúa

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir það lýsa kjarkleysi meirihlutans í borginni að tillögu minnihlutans um að falla formlega frá áformum um þéttingu við Miklubraut, Háaleiti og Bústaði hafi verið vísað frá.

Hann segir að það líti út fyrir að málinu verði slegið á frest framyfir kosningar í vor þegar boltinn fær svo að rúlla að nýju í trássi við vilja meirihluta borgarbúa. 

„Mér finnst þetta lýsa kjarkleysi því við buðum þeim upp á að afgreiða tillögunna í tvennu lagi. Og þar var önnur tillagan að staðfesta bara þau áform að falla frá þéttingu við Bústaðaveg sem búið var að senda út fréttatilkynningu um. Það að það sé ekki hægt að staðfesta það í borgarstjórn vekur upp grunsemdir um að það sé ekkert að marka þessa fréttatilkynningu,“ segir Eyþór við mbl.is. 

Segir ásetning meirihlutans skýran

Eyþór segir alveg ljóst hvað borgarfulltrúar meirihlutans ætli sér: markmiðið sé að slá málinu á frest fram að kosningum til þess að friðþægja óánægjuraddir en freista þess síðan að ganga til verks við Háaleitisbraut og Bústaðaveg á nýju kjörtímabili.

„Þessar hugmyndir um blokkaklasa við Háaleitisbraut, það gilda alveg sömu rök og varðandi Bústaðaveginn. Það að þetta skuli ekki afgreitt, það vekur grunsemdir um að þetta sé bara fréttatilkynning út af kosningum.“ 

Þannig þú vilt meina að það sé verið að sefa málið fram að kosningum?

„Akkúrat. Og maður heyrði það á umræðunum hjá borgarfulltrúum í meirihlutanum að þeir eru ekkert hættir við þetta plan þó að íbúarnir hafi náð að slá því á frest.“

Þar vísar Eyþór til Gallup-könnunar sem borgin gerði til þess að kanna viðhorf íbúa við Bústaðaveg til áformana þar. 

mbl.is