Borgin skoðar að selja Malbikunarstöðina

Reykjavík á og rekur malbikunarstöðina Höfða.
Reykjavík á og rekur malbikunarstöðina Höfða. mbi.is/sisi

Borgarráð samþykkti í dag að fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar yrði falið að meta kosti þess og galla að selja Malbikunarstöðina Höfða hf. og að leitað yrði til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins.

Þá var staðfest samkomulag Reykjavíkurborgar við malbikunarstöðina um brottflutning hennar frá Sævarhöfða 6-10 í Reykjavík.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að borgin og Malbikunarstöðin hafi gert með sér umrætt samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á 20 þúsund manna hverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. 

Malbikunarstöðin hefur keypt sér lóð við Álfhellu í Hafnarfirði og er flutningur þangað þegar hafinn. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigð samkeppni

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar í borgarstjórn, segir að málið sé mikið fagnaðarefni. Í ljósi metnaðarfullra áforma, sem kveðið er á um í samgöngusáttmála sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og ríkisins, verði að tryggja góða og heilbrigða samkeppni um þá þjónustu sem opinberir aðilar þurfi að kaupa. 

„Í ansi mörg ár hafa verið tvö fyrirtæki á þessum markaði, sem voru Hlaðberg-Colas og Malbikunarstöðin Höfði, og svo núna kom þriðja fyrirtækið á þennan markað og ég fagna því að það sé eðlileg samkeppni og það er ótrúlega mikil uppbygging framundan þannig það er mjög mikilvægt að það séu góð og öflug fyrirtæki sem þjónusta innviðauppbygginguna,“ segir Þórdís Lóa í samtali við mbl.is.

Malbikunarstöðin hf. færir sig í Hafnarfjörðinn og eru flutningar þegar …
Malbikunarstöðin hf. færir sig í Hafnarfjörðinn og eru flutningar þegar hafnir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Segir þjónusta við borgarbúa ekki minnka við sölu

Malbikunarstöðin á sér langa sögu, eins og Þórdís Lóa útskýrir, og hefur hún tekið margvíslegum breytingum í gegnum tíðina. Þannig hafi rekstri Malbikunarstöðvarinnar verið háttað undanfarin ár og áratugi eins og í einkafyrirtæki. Stöðin laut yfirráðum sérstakrar stjórnar og bauð í verkefni hins opinbera rétt eins og önnur fyrirtæki á markaði. Þórdís Lóa hefur því ekki áhyggjur af því að þjónusta við borgarbúa raskist eða minnki. 

„Undanfarin tíu, tuttugu ár hafa opinberir aðilar alltaf boðið út verkefni og þá tekur malbikunarstöðin þátt í þeim útboðum eins og hver annar,“ segir Þórdís og bætir við: „Þetta hefur verið sjálfstætt fyrirtæki með sjálfstæða stjórn þannig borgin hefur ekkert stýrt þessu fyrirtæki beint, en þetta hefur verið í eignasafni borgarinnar og okkur í Viðreisn finnst óeðlilegt annað en að kostir og gallar þess að selja verði skoðaðir.“

mbl.is