Orri vill leiða Framsókn í Kópavogi

Orri hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum bæjarins, svo sem …
Orri hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum bæjarins, svo sem stjórnarformennsku knattspyrnudeildar Breiðabliks. Ljósmynd/Aðsend

Orri Vignir Hlöðversson, forstjóri Frumherja og fyrrverandi bæjarstjóri Hveragerðis, gefur kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þetta segir í fréttatilkynningu frá framboði hans.

„Það er með mikilli eftirvæntingu sem ég býð mig fram til að leiða lista Framsóknar í Kópavogi í vor. Ég hef sterka tengingu við bæinn og hef fylgst náið með vexti hans og viðgangi um langt skeið,“ er haft eftir Orra í tilkynningunni en hann er uppalinn í Kópavogi og hefur búið þar mestan hluta ævi sinnar.

Hann hafi tekið virkan þátt í félagsstörfum bæjarins, svo sem stjórnarformennsku knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Orri segir aðaláherslur sínar snúa að vandaðri og gagnsærri stjórnsýslu, ráðdeildarsemi í rekstri og hátt þjónustustigs til íbúa.

„Ég er til þjónustu reiðubúinn og legg á vogarskálarnar mína reynslu, þekkingu og styrk,“ segir í tilkynningunni.

Starfað hjá sendinefnd ESB og sendiráði Bandaríkjanna

Orri, sem fæddur er árið 1964, lauk BA námi í alþjóðastjórnmálum og hagfræði frá Kaliforníuháskóla árið 1993. Hann hefur, sem segir, gengt starfi forstjóra Frumherja hf.síðastliðin 15 ár og er auk þess í hluthafahópi félagsins. Orri sinnti starfi bæjarstjóra í Hveragerði yfir eitt kjörtímabil fyrir það.

Þar á undan starfaði hann sem framkvæmdastjóri Fjárvaka, félags innan samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga. Orri bjó í Brussel í nokkur ár þar sem hann starfaði fyrst hjá Framkvæmdastjórn ESB og síðar sendiráði Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert