Vill verða oddviti sjálfstæðismanna á Nesinu

Þór Sigurgeirsson.
Þór Sigurgeirsson. Ljósmynd/Þór Sigurgeirsson

Þór Sigurgeirsson, sölu- og verkefnastjóri og fyrrverandi bæjarfulltrúi, býður sig fram til sætis oddvita á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Prófkjör verður haldið þann 26. febrúar næstkomandi.

Frá þessu greinir Þór sjálfur í fréttatilkynningu.

Þar segir að hann hafi lengið langað að bjóða fram krafta sína á sviði bæjarpólitíkur á Seltjarnarnesi. Hann hefur búið alla sína tíð á Seltjarnarnesi og sat sem bæjarfulltrúi í bænum árin 2006-2012.

„Öll málefni bæjarfélagsins eru áherslumál. Þó að Seltjarnarnesbær sé nærri fullbyggður þá stöndum við frammi fyrir fjölda áskorana í takt við nýja tíma. Lögbundin verkefni grunnþjónustunnar verða ávallt í fyrsta sæti og skiptir útsjónarsemi og ráðdeild í fjármálum þar öllu máli. Á næstunni mun ég kynna betur áherslur mínar og sjónarmið.

Ég tel mig afbragðsefni í góðan fyrirliða samtaka liðs í kosningunum í maí og mun leggja mig allan fram við að auka fylgi sjálfstæðismanna og sameina okkar sterka lið fái ég til þess umboð kjósenda í prófkjörinu,“ segir Þór í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert