„Sett fram til að skemma kosningabaráttuna mína“

Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Karen Elísabet Halldórsdóttir bæjarfulltrúi Kópavogsbæjar, telur að „ljót“ og „villandi“ frétt hafi verið birt til að skemma kosningabaráttu hennar í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi sem fór fram í síðustu viku.

Hún bauð sig fram í oddvitasæti flokksins en laut í lægra haldi fyrir Ásdísi Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem vann afgerandi sigur með 1.881 atkvæði af 2.521.

Birtist rétt áður en prófkjörinu lauk

Fréttin sem um ræðir birtist á föstudaginn í síðustu viku á vef Vísis, degi áður en prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi lauk. Fjallar hún í stuttu máli um að Karen hafi verið kærð af trúnaðarmanni innan flokksins til Persónuverndar vegna dreifingar á gögnum. Var fyrirsögnin „Karen í Kópavogi kærð til Persónuverndar“.

Eiga gögnin að hafa varðað trúnaðarmanninn sem var sagður vera í stuðningsmannaliði Ásdísar Kristjánsdóttur, sem var á þeim tíma mótframbjóðandi Karenar.

Samkvæmt fréttinni snerust gögnin um það að trúnaðarmaðurinn hafi verið á vanskilaskrá en Karen fékk gögnin í hendurnar í gegnum föður sinn, sem er Halldór Jónsson, en hann nálgaðist þau með hjálp lögmanns síns Sveins Andra Sveinssonar.

Sveinn Andri sótti upplýsingar fyrir umbjóðanda sinn, sem er Halldór, með því að slá téðum einstaklingi upp hjá Creditinfo, afhenda Halldóri þær sem svo kom þeim til dóttur sinnar sem dreifði þeim víðar. Á þeim forsendum að upplýsingarnar eigi fullt erindi til almennings,“ segir í fréttinni sem birtist á Vísi.

Fékk enga kæru

Í færslu Karenar á Facebook sem birtist fyrir skömmu segir að baráttan um oddvitasætið hafi að mestu farið prúðmannlega fram, fyrir utan umrædda frétt. Hún segir vonlaust að segja til um hvort fréttin hafi haft áhrif á kjósendur í prófkjörinu en að tímasetning hennar þyki grunsamleg. Þar að auki hafi fréttamaður ekki farið rétt með staðreyndir málsins.

Í færslunni rekur hún atvik mála frá sinni hlið:

„Þorri ehf er eignahlutafélag sjálfstæðismanna í Kópavogi. Stjórn fulltrúaráðsins fer með langstærstan hlut í félaginu og ég er lítill hluthafi. Faðir minn var framkvæmdastjóri Þorra. Við síðustu stjórnarskipti, fyrir ríflega þremur árum, hafði hann miklar áhyggjur af hæfi tveggja stjórnarmanna. Hann upplýsti stjórn Þorra um áhyggjur sínar og naut við það aðstoð lögfræðings, sökum heilsuleysis.

Ég fylgdi málinu svo eftir í júní sl. og krafðist þess að fjallað yrði um hæfi stjórnarmannanna sem um ræddi á aðalfundi Þorra. Tölvupósturinn sem ég sendi með þeirri kröfu var bara sendur á stjórnina. Allt að einu ákveður einn stjórnarmanna að áframsenda erindi mitt á bæjarfulltrúa og varabæjarfulltrúa og rýfur þannig trúnað við mig.“

Hún og faðir hennar krafin um fimm milljónir

Í nóvember fékk Karen síðan lögfræðibréf þar sem hún var krafin um fimm milljónir vegna miska. Fékk faðir hennar einnig slíkt bréf.

Taldi Karen þetta vera alvarlega hótun í sinn garð sem ekki var við unað. Þá hafi lögfræðingur hennar svarað erindinu og vísað því til föðurhúsanna „enda erfitt að sjá hvaða tjón [hún] átti að bæta,“ eins og segir í færslunni.

Svo líður og bíður og ekkert fréttist af þessu furðulega máli fyrr en 11. mars sl. Þá kemur umrædd frétt á Vísi, sem augljóslega er einungis sett fram til að skemma kosningabaráttuna mína og vinnu minna nánustu í mína þágu.

Fyrirvarinn var það lítill að ekki er hægt að bregðast málefnalega við honum. Í þessari skringilegu frétt er ég er sögð hafa vera „kærð“ þegar að hið rétta er að það var lögð fram „kvörtun“ til Persónuverndar – daginn fyrir prófkjörið.

Að sögn Karenar kemur tímasetningin ekki á óvart, miðað við það sem á undan er gengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert