„Þetta var ekki á áætlun“

Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/​Hari

„Já þetta er, til þess að gera, nýkomið upp,“ segir Páll Magnússon spurður hvort að framboð hans fyrir bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey í Vestmannaeyjum hafi komið skyndilega upp. Hann segir að viðræðurnar hafi staðið yfir síðustu tvær vikur. 

Páll, sem fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti í gær að hann myndi leiða H-lista, Fyrir Heimaey, sem er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. 

„Þetta var ekki á áætlun. En það er það sem sagt er um lífið; það er það sem gerist á meðan maður er upptekinn við að gera önnur plön,“ segir Páll enn frekar um tilkomu framboðsins. 

Úr Sjálfstæðisflokknum

Skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins gera ráð fyrir að framboð á móti lista flokksins jafngildi úrsögn úr flokknum. Þýðir þetta að þú verðir skráður úr Sjálfstæðisflokknum?

„Já ég held að það gerist nú sjálfkrafa. Þetta er þó ekki stjórnmálaflokkur, þetta er bæjarmálafélag og eins og ég tók fram [í tilkynningu á Facebook] breytir þetta engu um stuðning minn við Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu.“

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa borið gæfu til þess að laga þann klofning sem varð í Vestmannaeyjum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. „Þetta er ein birtingarmynd þess klofnings,“ segir hann. 

Kom ekki til greina af hálfu fulltrúa Fyrir Heimaey að taka þá þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Eyjum og láta þannig reyna á umboð frambjóðenda þar?

„Ég veit ekki betur en ákvörðun um framboð Fyrir Heimaey og hvernig því skyldi háttað hafi verið tekin talsvert áður en en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að hafa prófkjör í fyrsta sinn í 32 ár. En eins og ég segi hefur því miður ekkert gerst á þessum fjórum árum sem hefur lagað þennan klofning sem varð árið 2018. Þessi bæjarmálahreyfing varð upphaflega til úr klofningnum og hann er einfaldlega ennþá fyrir hendi.“

Ágreiningur árið 2018 ekki kosningamál 2022

Um hvað snýst þessi klofningur í dag? Elliði Vignisson er ekki lengur þátttakandi í stjórnmálum í Vestmannaeyjum. Snýst þetta um persónur og leikendur eða er málefnaágreiningur?

„Ég held að það sem gerist gjarnan í svona litlu samfélagi eins og Vestmannaeyjum er að ágreiningur, hvass málefnaágreiningur, verður mjög fljótt persónulegur. Líkt og ég sagði varð klofningur árið 2018 og menn hafa ekki borið gæfu til þess að laga það. Það er svosem ekki mikið annað um það að segja.

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég tók þó þessa ákvörðun um framboð á allt öðrum forsendum. Ágreiningurinn sem varð árið 2018 er auðvitað ekki kosningamál í dag. Ástæðan fyrir að ég tek þátt í þessu er einfaldlega áhugi minn á því að láta gott af mér leiða í mínu bæjarfélagi og ég mun einbeita mér að því.“

Páll segir að vinna hans í til að mynda fjárlaganefnd Alþingis hafa kallað á að hann fylgdist vel með störfum sveitarstjórna og samskiptum þeirra við ríkisvaldið. Hann telur sig vel til fallinn að veita Vestmanneyjabæ lið í þeirri vinnu og að sá meirihluti sem starfað hefur á yfirstandandi kjörtímabili hafi staðið sig vel. „Eftir umhugsun var ég fús til að leggja þessari hreyfingu lið og stuðla að því að þessi velgengni haldi áfram.“

Flytur til Eyja

Allar líkur eru á að þú náir kjöri sem bæjarfulltrúi sem oddviti listans, munt þú flytjast alfarið til Eyja?

„Já. Það má svosem segja að í tilfinningalegu tilliti hef ég aldrei flutt frá Eyjum. Ég hef átt lögheimili þar síðastliðinn áratug eða svo og dvalið þar í öllum frístundum mínum. Ég hef til þessa haldið tvö heimili, annað í bænum og hitt í Eyjum og mun gera það áfram. En það liggur fyrir að sem þátttakandi í bæjarmálum í Vestmannaeyjum verð ég miklu meira þar en uppi á landi.“

Vill sameina fylkingar í Vestmannaeyjum

Framboð þitt fyrir H-listann, felur það í sér gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn í Eyjum?

„Nei ekki endilega. Þar hafa orðið töluverðar breytingar á fólki á þeirra framboðslista. En auðvitað er það umhugsunarefni fyrir okkur öll að þessi fjögur ár hafa ekki nýst til þess að ná sáttum í flokknum.“

Er það eitthvað sem þú munt beita þér fyrir?

„Já. Vonandi verður hægt að laga þessi mál fyrr en síðar. Ég mun sannarlega ekki liggja á liði mínu í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert