Ekki nægilega gott að vera fjölskyldufólk í borginni

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir flokkinn vilja sjá Borgarlínuna með annarri útfærslu en borgarstjóri leggur til. Þá vill flokkurinn hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni þar til betri lausn finnst. 

Þetta er meðal þess sem Hildur ræddi um í samtali við mbl.is, í tengslum við áherslur flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. 

Hildur segir að flokkurinn leggi áherslu á að leysa stóru vandamálin sem blasi við borgarbúum svo sem húsnæðis-, samgöngu og fjölskylduvandann.

„Við þurfum að fara í kröftuga uppbyggingu á húsnæði, og við tölum fyrir því að skipuleggja ný hverfi, en líka að þétta byggð. Við viljum líka leysa samgönguvandann og við skiljum að hann verður ekki leystur með einni lausn. Við þurfum fjölbreyttar lausnir þar sem að fólk er ólíkt og vill ólíka hluti. Við viljum bregðast við því.“

Dýpkar menningarstríðið

Ein­ar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins, og Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri hafa átt í deilum á samfélagsmiðlum um húsnæðismálin. 

„Mér finnst þessar deilur þeirra dýpka á þetta menningarstríð sem ég hef talað um í borginni þegar að fólk er tala í sitthvorar öfgarnar og hrópa hvort á annað. Við viljum öll leysa þennan húsnæðisvanda og alveg eins og með samgöngumálin þá verður þetta ekki leyst með einni einhliða lausn.“

Meðal svæða sem Sjálfstæðisflokkurinn vill skipuleggja ný hverfi í Keldum og í Örfirisey. 

„Við tölum ekki endilega um stærðarinnar byggð en við viljum leyfa íbúabyggð á svæðinu. Það er þannig að fólk býr þar nú þegar í óleyfi og við viljum bregðast við því. Það er greinilega eftirspurn að búa á svæðinu,“ en flokkurinn vill líka skapa nýsköpunarþorp í eyjunni. 

Þá segir Hildur að einnig verði að þétta byggð.

„Það verður að vera innan hverfa sem geta tekið á móti fleiri íbúum. Þar sem skólarnir og leikskólarnir eru ekki sprungnir. Þar horfum við sérstaklega á Úlfársdal, sem er með stórkostlega nýja innviði, Staðahverfið í Grafarvogi, þar sem skólum hefur verið lokað vegna þess að það vantar börn, og Kjalarnesið, sem þarf aukin íbúafjölda til að geta orðið sjálfbært samfélag.“

Á forsendum íbúa og atvinnurekanda

Innt að því hver sé afstaða flokksins varðandi Borgarlínuna segir Hildur að flokkurinn vilji sjá aðra útfærslu á henni en núverandi borgarstjóri leggur til.

„Við viljum að útfærslan sé með þeim hætti að hún sé á forsendum íbúa og atvinnurekanda í borginni. Við trúum því að það sé hægt að bæta hér almenningssamgöngur og tryggja hágæða samgöngur sem er eftirsóknarvert að ferðast með án þess að þrengja að öðrum kostum í samgöngum.“

Tryggja þarf flugöryggi í Vatnsmýrinni

Annað deilumál í borginni er hvort flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni.

Hildur segir stefnu flokksins vera að flugvöllurinn eigi að vera þar sem hann er, þar til betri lausn eða staður finnst.

„Undanfarið hefur Hvassahraun verið til skoðunar en síðan kom babb í bátinn þegar það urðu eldsumbrot á svæðinu. Á meðan að verið er að leita að öðrum stað, þetta tekur allt einhverja áratugi í framkvæmd, þá þarf að tryggja flugöryggi í Vatnsmýrinni. “

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

100 þúsund króna foreldrastyrkur

Hildur segir að ekki sé nægilega gott að vera fjölskyldufólk í Reykjavík í dag.

„Það er ekki nægilega vel staðið að þessum hópi hér. Við sjáum það að fólk er að flytja í miklum mæli í nágrannasveitarfélögin. Þar sem leikskólaþjónustan er betri og íþróttastarfið er betra,“ segir hún og að áfram megi telja. 

„Við viljum bregðast við þessari þróun. Það á að vera eftirsóknarvert að vera fjölskylda í Reykjavík.“

Meðal lausna sem flokkurinn leggur fram er foreldrastyrkur fyrir foreldra sem vilja dvelja heima með börnin sín eftir fæðingarorlof, til tveggja ára aldurs. 200 þúsund krónur á mánuði.

Þá er lagt til að frístundakort gildi frá fimm ára aldri og verði hækkað í 70 þúsund krónur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert