Borgarlína í framkvæmd á næsta kjörtímabili

Frá viðburði Samfylkingarinnar í Gamla bíó í dag.
Frá viðburði Samfylkingarinnar í Gamla bíó í dag. mbl.is/Óttar

„Ég held að þetta séu rosalega mikilvægar kosningar vegna þess að á næsta kjörtímabili fara borgarlínan og Miklubrautarstokkur í framkvæmd, margar framkvæmdir klárast en aðrar fara í gang,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.

Samfylkingin í Reykjavík kynnti kosningaáherslur sínar fyrir borgarstjórnarkosningar í Gamla bíó í dag.

„Ég held að það sé hætt við því að margar framkvæmdir tefjist ef fólk sem er með óljósa framtíðarsýn kemst að, og ef einhver ætlar sér að kollvarpa stefnunni er hætt við því að húsnæðisuppbygging tefjist, tafirnar í umferðinni verði meiri og það verði dýrara,“ segir hann.

Kalla eftir húsnæðissáttmála

Spurður um helstu stefnumál segir Dagur mikla áherslu lagða á húsnæðismálin.

„Við erum að tvöfalda þær lóðir sem eru til ráðstöfunar á næstu fimm árum og tvöfalda uppbygginguna sem getur orðið. Við leggjum áherslu á að hluti hennar verði óhagnaðardrifinn á vegum félaga sem eru þá að byggja fyrir tekjulægri, stúdenta og eldra fólk,“ segir hann.

„Húsnæðismálin eru stór hjá okkur og við köllum eftir húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið. Við höfum góða reynslu af því að hafa gert samgöngusáttmála.“

Þá eru málefni barna og barnafólks ofarlega á lista Samfylkingarinnar. „Við viljum hækka frístundakortið í 75 þúsund á ári og 100 þúsund fyrir þá sem eru tekjulægstir til að tryggja jafnt aðgengi allra að frístundum,“ segir Dagur.

Umferðin færi í hnút án borgarlínu

„Við leggjum áherslu á að fjárfesta í hverfunum okkar þar sem fólkið býr en ekki að færa fókusinn og fjármagnið út í hverfi þar sem enginn býr. Eitt af neikvæðu atriðunum við að dreifa byggð er að þá dreifum við fjármagninu líka, við viljum fjárfesta í íþróttamannvirkjum, sundlaugum og slíku í núverandi hverfum.“

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, boðaði nýlega uppbyggingu í Keldnalandi sem Dagur gagnrýndi á facebook-síðu sinni. Segir hann ekki raunhæft að byggja upp þar á næstu fimm árum.

„Til þess að umferðin fari ekki öll í hnút þá þarf að koma borgarlína fyrst og það er svo mikilvægt að átta sig á að þetta þarf að gerast í þessari röð. Annars bætum við bara umferð inn á Miklubraut á morgnana og seinni partinn og það er ekki á það bætandi.“

Óviss um samstarf með Framsókn

Dagur segist ekki viss um hvort hann sjái fram á samstarf með Framsóknarflokknum.

„Mér finnst Framsókn svolítið verða að svara því í hvorn fót þau ætla að stíga, til dæmis í skipulags- og uppbyggingarmálum, þau eru svolítið að segja bæði þétta og dreifa og þetta er bara ekki nógu skýrt,“ segir hann.

„Meirihlutinn sem hefur setið núna er með ofboðslega skýra sýn og búinn að leggja drög að framtíðinni og hægt er að byggja á fjölda þéttingarreita þannig að mér finnst að Framsókn þurfi bara að gera svolítið hreint fyrir sínum dyrum í þessum málum áður en ég get svarað því.“

Er eitthvað sem hefði mátt fara betur á kjörtímabilinu hjá meirihlutanum?

„Auðvitað vill maður að það sem er gott og mikilvægt gerist enn hraðar en það er búinn að vera slíkur kraftur í ýmsu þrátt fyrir Covid og um tíma hafði ég áhyggjur af því að það myndi tefja fyrir íbúðauppbyggingu og öðru slíku en þvert á móti sjáum við að þetta eru algjör metár í slíkri uppbyggingu,“ svarar Dagur.

„Nú horfi ég bara bjartsýnn fram á betra vor og að svo komi sumar sem verði alveg frábært í borginni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert