Hildur á auglýsingaskiltum á Tenerife

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík auglýsir nú á Tenerife.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík auglýsir nú á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur tekið kosningabaráttu sína út fyrir landsteinana en flokkurinn auglýsir nú framboð sitt fyrir komandi borgarstjórnarkosningar á Tenerife, þar sem margir sólþyrstir Íslendingar leggja leið sína.

Á auglýsingaskiltum lofar Hildur Björnsdóttir, oddviti flokksins, íslenskum ferðalöngum betra veðri með því að fara í átak í gróðursetningu trjáa sem tryggja muni betri veðurskilyrði í borginni.

Í samtali við mbl.is segir Hildur að flokkurinn auglýsi einungis á flugvellinum á Tenerife en eins og mbl.is hefur greint frá lagði fjöldi Íslendinga leið sína til Tenerife yfir páskana.

„Við mætum fólki þar sem það er statt. Margir Reykvíkingar hafa verið á ferðalagi yfir páskana þannig að við vildum óska þeim góðrar ferðar og hlökkum til að sjá þau aftur í Reykjavík,“ segir Hildur.

Gáfu birkigræðlinga

Flokkurinn virðist leggja mikið upp úr því að fleiri tré verði gróðursett í Reykjavík en í gær, sumardaginn fyrsta, gengu frambjóðendur flokksins í hús og gáfu birkigræðlinga.

„Fólk tók okkur alveg ótrúlega vel. Á sumum stöðum stoppaði maður lengi vel og leit jafnvel inn í kaffi. Sumir voru líka svo ánægðir með að fá tréð að þeir gróðursettu það á staðnum. Þannig að það var tekið vel í framtakið,“ segir Hildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert