Vill göngugötu frá Hlemmi að Ingólfstorgi

Bílum ekið um göngugötu.
Bílum ekið um göngugötu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, varpaði þeirri hugmynd fram á Twitter í nótt að gera göngugötu frá Ingólfstorgi upp Laugaveginn og að Hlemmi. Í samtali við mbl.is segir Pawel að göngugatan yrði þá 1,5 kílómetri að lengd og því um 400 metrum lengri en Strikið í Danmörku.

„Þetta yrði klárlega með lengri göngugötum í Evrópu, myndi ég halda,“ segir hann.

„Við berum okkur alltaf saman við okkar gömlu herraþjóð Dani, og þá er bara gaman að sjá að það er mjög góður möguleiki á göngugötu sem er, í það minnsta ekki styttri en þeirra flaggskip,“ bætir hann við.

„Mér finnst þetta fullkomlega framkvæmanlegt, við erum búin að gera helminginn af þessu. Göngugötukaflinn núna er svona sirka 750 metrar.“

Hluti Laugavegar er nú göngugata.
Hluti Laugavegar er nú göngugata. mbl.is/Eggert

Erfitt að spá fyrir um tímasetninguna

Hann segir að eitt af viðfangsefnum Viðreisnar á næsta kjörtímabili verði að gera Laugaveginn upp að Barónsstíg að göngugötu. Erfiðara sé að spá um tímasetninguna á kaflanum eftir það, þar sem í dag er bílastæðahús á milli Barónsstígar og Snorrabrautar.

„Það þyrfti kannski að skoða framtíð þess ef við mundum breyta þeim vegkafla.“

Hann bætir því við að þegar Hlemmi verði breytt í fallegt torg, þá liggi það beinlínis við að búa til göngugötu milli þessara tveggja torga. Það er frá Ingólfstorgi og að nýjum Hlemmi.

Pawel kveðst einnig spenntur fyrir því að skoða það að fækka bílastæðum í kringum Hallgrímskirkju og setja þar í staðinn almenningsgarð.

„Við getum haft einhverskonar sparkvelli, ekki bara fyrir börn heldur svo fullorðið fólk geti stundað íþróttir á kvöldin, eða körfuboltavelli í anda Klambratúnsins, þó að áferðin yrði aðeins öðruvísi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert