„Skiltið fer niður“

Dóra Björt, oddviti Pírata, við skiltið umdeilda við Borgartún.
Dóra Björt, oddviti Pírata, við skiltið umdeilda við Borgartún. Ljósmynd/Aðsend

Skilti sem varar við hraðahindrun og komið var fyrir á nýlegum hjólastíg við Borgartún, í kjölfar framkvæmda við gatnamót Borgartúns og Snorrabrautar, verður tekið niður. Þetta segir Kristinn Jón Eysteinsson, verkefnisstjóri yfir hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is, en í gær fór í gang umræða um staurinn og blandaði Dóra Björt Guðjóns­dótt­ir, odd­viti Pírata og vara­formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs Reykja­vík­ur, sér í málið og sagðist vilja staurinn í burtu.

„Þetta var í fyrstalagi bara klúður,“ segir Kristinn og bætir við að um misskilning í hönnunarteikningum hafi verið að ræða. „Það dettur engum í hug að gera svona í dag.“ Hann rekur forsöguna og segir að þarna hafi upphaflega verið hraðahindrun sem hafi verið tekin í burtu, en í staðinn hafi gatnamótin í heild verið hækkuð upp. Skiltið hafi hins vegar lifað óvart áfram inni á teikningum.

„Skiltið fer niður og ekkert annað kemur í staðinn þarna,“ segir Kristinn og ljóst er að ekki er ætlunin að láta skilti sem þessi vera á stígum sem sérstaklega eru hannaðir fyrir hjólandi umferð, en Dóra sagði við mbl.is í gær að skiltið ógni öryggi hjólandi og að þarna væri að teiknast upp sú mynd að hagsmunir hjólandi væru að víkja fyrir hagsmunum keyrandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert