Það er enginn að bjóða sig fram til að gera mistök

Eitt helsta vandamálið sem sveitarstjórnarstigið glímir við er hversu illa fólk helst við í sveitarstjórnum um land allt.

Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra segir fjölmarga þætti koma til. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hafi verið rannsakaðar í hans ráðherratíð og alþjóðleg rannsókn bendi til að kjörnir fulltrúar búi við verulega aukið áreiti vegna starfa sinna á samfélagsmiðlum. 

„Samfélögin hafa að einhverju leyti breyst að því leyti líka að menn virðast ganga lengra í því. Ótrúlega hátt hlutfall fólks hefur upplifað áreiti sem ekki er eðlilegt og er ekki endilega það sem þú ert að bjóða þig fram til,“ segir Sigurður Ingi.

Vaxandi verkefni og flóknari

Sigurður Ingi er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum og ræðir sveitarstjórnarmálin í aðdraganda kosninga, starfsumhverfi sveitarstjórnarstigsins, áskoranir þess og málin sem virðast vera að flækjast fyrir kosningaumræðunni. 

Þá bendi Sigurður Ingi á að verkefni kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum séu vaxandi og verða flóknari með tímanum. Þá kallist starfskjör ekki endilega á við verkefnin. 

„Sum málin eru býsna slungin; velferðarmál þar sem þú ert að taka ákvörðun í nærumhverfinu, hvort sem er nú ættingjar þínir, vinir eða nágrannar. Eins á sviði skipulagsmála þar sem eru kannski miklir hagsmunir – stór fyrirtæki eða félagasamtök sem kannski ganga mjög langt. Þú verður að vera með allt þitt á hreinu,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að enginn vilji gera mistök.

„Menn eru ekki að bjóða sig fram til þess. Það eru allir að reyna að vanda sig.“

Þáttinn má í heild sinni nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert