Gneistaði milli oddvitanna í Eyjum

Njáll Ragnarsson (E), Eyþór Harðarsson (D) og Íris Róbertsdóttir (H) …
Njáll Ragnarsson (E), Eyþór Harðarsson (D) og Íris Róbertsdóttir (H) mættu í hljóðstofu Dagmála í Eyjum og þar var hart tekist á. Mbl.is/Brynjólfur Löve

Það er ekki enn gróið um heilt í pólitíkinni í Vestmannaeyjum, þótt fjögur ár séu liðin frá því að Íris Róbertsdóttir efndi til sérframboðs, klofnings út úr Sjálfstæðisflokknum og felldi meirihlutann.

Dagmál heimsóttu Vestmannaeyjar í vikunni og tóku forystufólk framboðanna þriggja sem bjóða fram í sveitarfélaginu tali. Páll Magnússon, oddviti H-lista átti ekki heimangengt en í hans stað mætti Íris Róbertsdóttir sem hefur raunar verið í miðdepli hinna pólitísku deilna sem ekki sé fyrir endann á.

Fjögurra ára gamlar væringar

Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins segir snemma í samtalinu að átökin frá 2018 heyri fortíðinni til en það þess þurfti ekki að bíða lengi uns harkalega skarst í odda milli hans og Írisar og blandaði Njáll Ragnarsson, oddviti E-listans sér raunar í umræðuna. Kvartar hann undan því að ekki skuli hægt að ræða pólitík í Eyjum öðruvísi en að fólk taki að velta sér upp úr fjögurra ára gömlum væringum.

Er óhætt að halda því fram að samtalið við forystumenn framboðanna í Eyjum sé einn hressilegasti þátturinn sem sendur hefur verið út undir merkjum Dagmála en síðustu vikur hafa blaðamenn Morgunblaðsins gert víðreist um landið og tekið sveitarstjórnarfólk og aðra þá sem láta sér samfélagsmálefni varða tali. Hafa þessir þættir notið mikilla vinsælda og eru aðgengilegir á mbl.is og á helstu hlaðvarpsveitum á borð við Spotify.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert