„Eftir eitt ei heyrist neitt!“

Íbúar miðbæjarins hafa fengið sig fullsadda af djamminu.
Íbúar miðbæjarins hafa fengið sig fullsadda af djamminu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir eitt ei heyrist neitt – þannig hljómar slagorð nokkurra íbúa í hjarta miðbæjarins sem hafa fengið sig fullsadda af „yfirgengilegum hávaða frá diskóbörum og öllum skrílslátunum og sóðaskapnum“ sem þrífst í kringum þá.

Þrýstihópur sem berst fyrir þessu gengur undir heitinu „Kjósum hávaðann burt“ á Facebook og birti stutta heimildamynd þar sem íbúar miðbæjarins krefjast svefnfriðs á milli 23.00 og 07.00 alla daga.

Læti frá Kofanum, Prikinu og Kaffibarnum 

Í myndbandinu er húsnæði skemmtistaðarins Kofans gert að umtalsefni:

„Hérna fyrir aftan mig er dæmigert timburhús á laugarveginum sem er byggt í kringum 1900,“ segir Benóný Ægisson íbúi í miðborginni og á við skemmtistaðinn Kofann. Sömu sögu sé að segja um Prikið, Kaffibarinn og Dillon svo fátt eitt sé nefnt.

„Þetta eru hús sem eru byggð á kjöllurum hlöðnum úr holtagrjóti. Síðan úr timbri, einangruð með sagi, spón eða reyðingi sem er allur siginn niður þannig að þau halda engu hljóði. Öll hljóð við húsgafl eru jafnhá og inni,“ segir hann.

Flokkur fólksins er eini flokkurinn í Ráðhúsinu sem berst fyrir hagsmunum þessa hóps og segir Kolbrún Baldursdóttir oddviti flokksins í borginni að flokkurinn hafi fyrst lagt það til árið 2018 að hávaðareglugerð yrði fylgt eftir og að næturlífsstjóri tæki jafnvel til starfa til þess að hafa eftirlit með þessum málum og gert drög að skipulagsbreytingum sem miða að því að hólfa skemmtanalífið niður í mismunandi hljóðsvæði. Þannig megi hugsa sér mismunandi hljóðsvæði frá 1-5, en á „partísvæði“ mætti hávaðinn (innandyra) vera mikill og opið langt fram á nótt.

Undir fólki komið hvar það býr?

Næturlíf er nú mest í hjarta miðbæjarins. Er það ekki svolítið undir fólki komið hvar það býr?

„Það er ekki bara það. Mörg hótel og gistiheimili sem eru í miklum vandræðum með þetta, ferðamenn geta ekki sofið. Þegar þeir fara út mæta þeir ölvuðu fólki og sóðaskap. Þetta er líka ferðamannaiðnaðurinn sem þarf að horfa til.“

Hún segir meirihlutann hafa algjörlega vanrækt málaflokkinn en eftir að Flokkur fólksins hafi lagt til að hávaðareglugerðinni yrði fylgt eftir væri aukinn vilji til þess að skoða málið.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, vill finna lausnir á vandanum.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, vill finna lausnir á vandanum. Ljósmynd/Flokkur fólksins

Næturlíf er hluti af borgarlífinu, til dæmis í stórborgum erlendis. Eru einhver dæmi um það annars staðar að allt gæti verið kyrrt eftir klukkan eitt?

„Það er enginn að tala um það. Við erum að tala um þessa næturklúbba sem eru opnir til hálf fimm og hávaðinn er slíkur að það bara blastar bassa. Þetta eru gömul hús. Fyrsta skrefið er að virða reglugerðina, það er númer eitt. Það hljóta allir að vera sammála um það, að þegar reglugerð er sett verði hún virt. Síðan eru bara allskonar lausnir til,“ segir hún og Flokkur fólksins hafi vakið máls á þeim.

Þá nefnir hún að mikill skortur á leigubílum og það að næturstrætó sé ekki til staðar geri ástandið enn verra en hún vill koma næturstrætó aftur í gagnið. „Það þarf að ræða þetta, þetta hefur verið þaggað í boði meirihlutans, og ég vil taka þessi mál upp á borð,“ segir Kolbrún í lokin.

Hér má sjá myndband þrýstihópsins „Kjósum hávaðann burt!“:

mbl.is