Oddvitar takast á um Skerjafjörðinn

Lengi hefur verið deilt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og hvort eigi …
Lengi hefur verið deilt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og hvort eigi að færa hann eða ekki. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók það skýrt fram á dögunum að Reykjavíkurborg væri ekki heimilt að fara í uppbyggingu í grennd við Reykjavíkurflugvöll þar til ný staðsetning væri fundin fyrir flugvöllinn. Ráðherra vísaði þar sérstaklega til skýrslu frá hollensku loft- og geimferðastofnuninni þar sem segir að loka þyrfti vellinum á einstaka tímum ef til uppbyggingar kæmi, sem myndi þá ógna flugöryggi. Blaðamaður Morgunblaðsins heyrði í oddvitum flokkanna í Reykjavík til þess að fá þeirra álit á þessu máli.

Sé ekki að leita lausna

„Mér finnst þetta auðvitað vonbrigði ef innviðaráðherra er ekki að vinna að því að halda samninga við Reykjavíkurborg um að finna flugvellinum nýjan stað og að hann fari úr Vatnsmýrinni. Það eru mikil vonbrigði að það sé ekki þessi samstarfsvilji til þess að standa við gefin loforð gagnvart Reykjavíkurborg,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri-grænna í Reykjavík, um málið. Hún segir landið gríðarlega mikilvægt byggingarland í ljósi stöðunnar í heiminum, það er loftslagsbreytinga af mannavöldum.

„Ég myndi segja að þetta væri mikil afturför í baráttunni við loftslagsbreytingar, ef við fáum ekki þetta byggingarland,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst að við getum leyst allt með góðu samtali og ég held að við þurfum bara að byrja á því að hitta ríkið. Þau verða líka að skilja okkar sjónarmið hér,“ segir Líf.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, vildi lítið tjá sig um málið. Þó tók hún fram að ákveðnir skipulagsferlar væru í gangi og orð ráðherra um áætlanir borgarinnar breyttu engu.

„Það er alveg eðlilegt að tala saman og taka samtalið en þessi orð ráðherra breyta engu um áætlanir borgarinnar,“ segir Þórdís.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir flokkinn þeirrar skoðunar að uppbyggingin í Skerjafirði þyrfti að vera hóflegri en núverandi meirihluti leggur til.

„Það er algjörlega skýrt frá okkar bæjardyrum séð að það þarf að gæta að því að uppbygging ógni ekki flugöryggi,“ segir Hildur og bætir við: „Það þarf heildstætt að endurskoða þetta og íbúar eru verulega ósáttir við byggingamagnið sem er kynnt. Þótt það megi sannarlega byggja meira í Skerjafirði og skapa forsendur fyrir skólastarf þá er gengið ansi langt í þessum tillögum.“

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segist vera sammála innviðaráðherra. Telur hann mikilvægt að borgin virði samninginn sem hún gerði við ríkið árið 2019 um að fara ekki í frekari uppbyggingu á svæðinu þar til ný staðsetning fyrir völlinn sé ákveðin.

„Ég væri til í að byggja í Vatnsmýrinni og nýta það land sem þar er ef við finnum annan stað undir flugvöllinn. Það er mjög spennandi framtíðarland fyrir Reykjavíkurborg að nýta til uppbyggingar í höfuðborginni. En þá verðum við að vera búin að finna annan stað fyrir flugvöllinn sem þjónar sjúkraflugi og innanlandsflugi í námunda við Reykjavík,“ segir Einar og bætir því við að mikilvægt sé fyrir meirihlutann að virða þá samninga sem hafa verið gerðir um flugvöllinn.

Alfarið á móti uppbyggingu

Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, segir Miðflokkinn alfarið á móti frekari uppbyggingu við flugvallarsvæðið.

„Það er kerfisbundið búið að vera að þvinga flugvöllinn út úr borginni og stjórnvöld hafa ekki náð að halda í við borgina við að verja staðsetningu hans,“ segir Ómar. Eini raunhæfi kosturinn sem núverandi meirihluti hefur sett fram að hans sögn sé að færa flugvöllinn til Keflavíkur.

„Ef flugvöllurinn í Reykjavík verður fluttur til Keflavíkur, sem er það eina sem við höfum í dag, þá mun það leiða sjálfkrafa til þess að innanlandsflug leggst af innan nokkurra ára, ég fullyrði það.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokksins segir eðlilegast að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið í sínu sveitarfélagi en það þurfi að tryggja nýja staðsetningu fyrir flugvöllinn áður en uppbygging hefst á svæðinu.

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson oddvita Samfylkingarinnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur oddvita Pírata og Kolbrúnu Baldursdóttur oddvita Flokks fólksins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert