Meta ekki fullyrðingu um fölsun

Frambjóðendur frá vinstri, Guðmundur Óli Scheving, Halla Gunnarsdóttir, Örn Sigurðsson, …
Frambjóðendur frá vinstri, Guðmundur Óli Scheving, Halla Gunnarsdóttir, Örn Sigurðsson, Gunnar H. Gunnarsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir og Gunnlaugur M. Gunnarsson. Ljósmynd/Reykjavík, besta borgin

Ábyrgðarmenn framboðsins Reykjavík, besta borgin, segjast ekki vera í aðstöðu til að meta fullyrðingu um fölsun undirskriftar Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þingmanns Pírata, á þessari stund, að því er kemur fram í yfirlýsingu.

Birgitta greindi frá því í face­book-færslu fyrr í dag að und­ir­skrift henn­ar hefði verið fölsuð á skjali sem varðaði heim­ild til að setja nafn henn­ar á lista fram­boðsins til borg­ar­stjórn­ar. Birgitta sagðist orðlaus vegna þessa verknaðar.

Undir yfirlýsinguna skrifa Gunnar H. Gunnarsson oddviti listans, Guðmundur Óli Scheving og Örn Sigurðsson. Þeir segjast harma þá umræðu sem komin er upp um óánægju aðila í 24. sæti með setu á framboðslistanum og um fullyrðingar þess aðila um fölsun undirskriftar. Birgitta situr í 24. sæti listans.

„Óánægja þessa aðila kemur okkur á óvart og þykir okkur mjög miður,“ segir í yfirlýsingunni.

Stóðu í þeirri trú að listarnir væru réttir

Þá segir að rannsókn standi nú yfir innan framboðsins á meðferð gagna í aðdraganda að skilum á annars vegar lista yfir meðmælendur og hins vegar á listum yfir frambjóðendur. „Við höfum staðið í þeirri góðu trú að listarnir séu réttir.“

Bent er á í yfirlýsingunni að yfirkjörstjórn hafi úrskurðað að framboðið Reykjavík, besta borgin, sé gilt. Eva Bryndís Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar, sagði í samtali við mbl.is að framboð Birgittu væri gilt og að listinn stæði þrátt fyrir meinta fölsun.

„Framboðið mun því halda áfram að kynna málefnin og taka þátt í kosningabaráttunni. Við munum leggja okkur fram um að eiga gott samstarf við Yfirkjörstjórn Reykjavíkur,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert