„Þeir vinna sem vinna“

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins gefur lítið fyrir óvilhallar niðurstöður nýjustu …
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins gefur lítið fyrir óvilhallar niðurstöður nýjustu könnunar prósents. Eggert Jóhannesson

Engan bilbug er að finna á Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þrátt fyrir óvilhallar niðurstöður nýjustu könnunar Prósents, sem framkvæmd var fyrir Fréttablaðið. 

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 16,2 prósent, sem er rúmlega þremur prósentustigum lægra en í síðustu könnun. Flokkurinn fékk 30,8 prósent fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosningum og náði þá inn 8 borgarfulltrúum, en með 16,2 prósenta fylgi næði flokkurinn aðeins inn fjórum fulltrúum. 

„Við sjáum, fyrir það fyrsta, að það er einungis um helmingssvarhlutfall í þessari könnun og niðurstöður eru ekki í samræmi við þær sem við höfum innsýn í og eru framkvæmdar fyrir okkur. Þar er þróunin jákvæð og við horfum bara mjög bjartsýn á framhaldið,“ segir Hildur.

Þá segir hún að niðurstöðurnar endurspegli sannarlega ekki samtöl hennar við kjósendur í borginni og gefur því lítið fyrir þær.

Fylgið ekki að fara annað

Af lestri kannana kveðst Hildur ekki sjá að fylgi flokksins sé að fara annað. 

„Það gæti verið að fylgið okkar sé bara ekki þátttakandi í þessum könnunum, en þetta er auðvitað bara samkvæmisleikur og niðurstöður munu svo rata upp úr kjörkössum á laugardag.“

Framundan eru fjölmörg viðtöl, pallborð og kappræður milli oddvita flokkanna en kosið verður á laugardaginn.

Eldsneyti inn í síðustu dagana

„Það verður nóg að gera og þetta er auðvitað skemmtilegasti tíminn í baráttunni og sá tími þegar allt getur gerst.“

Þá bendir hún á að enn séu margir með óuppgerðan hug, enda sýni tölfræði fram á að meirihluti kjósenda geri upp hug sinn fjórum dögum fyrir kosningar.

„Við notum svona kannanir fyrst og fremst sem eldsneyti inn í síðustu dagana, að gera meira. Þeir vinna sem vinna og við Sjálfstæðismenn kunnum svo sannarlega að vinna.“

Tveir valkostir

Kosningarnar í Reykjavík koma til með að snúast um tvo skýra valkosti, að sögn Hildar.

„Hvort að fólk vilji áfram haldandi meirihluta undir núverandi forystu borgarstjóra, eða hvort fólk vilji nýja forystu, bætta þjónustu og nýjar áherslur. Þá er bara einn kostur fyrir þann hóp og það er Sjálfstæðisflokkurinn.“

Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem hafi nægt afl til að leiða meirihluta breytinga og eini flokkurinn sem boði breytingar í stefnu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert