Ákall VG um náttúruvernd á höfuðborgarsvæðinu

Frambjóðendur VG í Hafnarfirði í dag.
Frambjóðendur VG í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frambjóðendur frá Vinstri hreyfingunni - grænu framboði á höfuðborgarsvæðinu krefjast þess að umhverfismálin verði rædd fyrir sveitastjórnarkosningarnar á laugardaginn en einnig í framhaldi af kosningunum. 

Bjarki Bjarnason í Mosfellsbæ, Davíð Arnar Stefánsson í Hafnarfirði, Elín Björk Jónasdóttir í Reykjavík og Ásta Kristín Guðmundsdóttir í Kópavogi vöktu athygli á þessu fyrir hönd VG í Hafnarfirði í dag. 

Mæltu þau sér mót við Ástjörn í Hafnarfirði. „Ástjörn er friðlýst svæði sem fyrirhugað er að byggja upp og þar verður að huga að því að  framkvæmdir valdi sem minnstu raski. Svæðið er táknrænt fyrir mikilvægi náttúruverndar samhliða uppbyggingu,“ segir í tilkynningu frá VG. 

„Við þurfum að hlúa að og fjölga grænum svæðum á öllu höfuðborgarsvæðinu svo fólk geti notið útivistar og skapað börnum örugg og áhugaverð svæði til leiks. Við þurfum að vernda náttúruperlur á höfuðborgarsvæðinu, eins og Ástjörn í Hafnarfirði, og ráða landverði sem hafa það hlutverk að sinna fræðslu, eftirliti og gera náttúruna aðgengilegri fyrir fólk,“ er haft eftir Davíð Arnari Stefánssyni oddvita VG í Hafnarfirði. 

Líflegar umræður við Ástjörn í Hafnarfirði í dag.
Líflegar umræður við Ástjörn í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Umhverfismál og náttúruvernd eru gríðarlega mikilvæg fyrir lífsgæði okkar allra. Þess vegna viljum við vekja sérstaka athygli á þeim og hversu mikilvægt það er að umhverfis- og náttúverndahreyfing komi að stjórn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að næstu árin mun verða mikil uppbygging á höfuðborgarsvæðinu og það skiptir sköpum að sjónarmið náttúrunnar sé haldið til haga strax frá skipulagsstigi. Það er auðveldara og hagkvæmara að tryggja náttúruvernd og aðgang borgarbúa að grænum svæðum samhliða því að við byggjum,“ er haft eftir Elínu Björk Jónasdóttur frambjóðanda VG í Reykjavík í tilkynningunni. 

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, með tvo þriðju íbúa landsins, bera mikla ábyrgð í loftslagsmálum og þau þurfa að ganga lengra og vera til fyrirmyndar. Þess vegna viljum við að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinist um metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum, “ er haft eftir Bjarka Bjarnasyni oddvita VG í Mosfellsbæ í tilkynningunni. 

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum að gera fólki kleift að ferðast með skjótari, hagkvæmari og umhverfisvænni hætti um höfuðborgarsvæðið. Þess vegna þarf að efla Strætó og flýta Borgarlínu samhliða að gera átak í uppbyggingu göngu- og hjólreiðastíga. Við þurfum að forgangsraða landi fyrir mannlíf, náttúru og húsnæði,“ er haft eftir Ástu Kristínu Guðmundsdóttur, frambjóðenda VG í Kópavogi í tilkynningunni. 

mbl.is