Nýtt neyðarskýli fyrir konur og áfram þétting

Dóra Björt í oddvitaviðtali Dagmála.
Dóra Björt í oddvitaviðtali Dagmála. mbl.is/Ágúst Ólíver

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, segir að sér hafi ekki hugnast samstarfssamningur sem Reykjavíkurborg gerði við Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu um aðgerðir til að uppræta vændi og kynlífsvinnu á hótelum. Það falli ekki að skaðaminnkunarhugsjón Pírata í Reykjavík.

Píratar frjálslyndari

„Hvað gerist hjá þeim sem eru að stunda vændi á hótelum? Færist það þá ekki bara á einhvern stað þar sem þú sérð ekki til? Þar sem er þá ekki hægt að koma til hjálpar,“ segir Dóra Björt. Málið nefnir hún sem dæmi um hvað aðskilur Pírata í borginni frá öðrum meirihlutaflokkum og þá sérstaklega Samfylkingunni og segir hún flokkinn bæði frjálslyndari og grænni.

Dóra Björt er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum. Dóra segir það skýrt í stefnu Pírata að auka þurfi þjónustu við heimilislausar konur og nýtt neyðarskýli þurfi fyrir konur.

Píratar stefna að því að fleiri innviðir verði tilbúnir í byggðum sem eru í uppbyggingu en að ekki þurfi að bíða lengi eftir þeim eftir að hverfi byggist og nefnir Úlfarsárdalinn sem dæmi.

Spurð hvernig íbúalýðræði sem Pírötum verður tíðrætt um komi fram í borginni annars staðar en í Hverfinu mínu, þar sem kosið er um smávægilegar umbótatillögur, segir Dóra Björt það koma fram í vinnubrögðum og samráðsnefndum borgarinnar.

Vill ekki spara í lýðræðinu

„Í lýðræðisstefnunni erum við búin að móta meginmarkmið sem eru lýðræðisleg vinnubrögð og lýðræðisleg hringrás vinnubragða sem við verðum að innleiða í öllu stjónkerfinu, það er; að hlusta, rýna, breyta og miðla.“

Viðreisn stefnir að fækkun ráða, nefnda og sviða í stjórnsýslunni í Reykjavíkurborg. Spurð hvernig sú stefna samrýmist þessari áherslu Pírata um eflingu íbúalýðræðis innan ráða og nefnda segir Dóra Björt að flokkurinn sé ekkert sérstaklega upptekinn af því að fjölga nefndum og ráðum, þvert á móti hafi þeim fækkað á kjörtímabilinu. „En lýðræði kostar líka. Þetta er alltaf jafnvægiskúnst og við viljum ekki spara í lýðræðinu,“ segir Dóra Björt.

Stóðu með íbúaráðum

Hún segir Viðreisn hafa viljað leggja niður hverfisráðin, sem í dag kallast íbúaráð, en Píratar hafi staðið gegn því.

„Okkar styrkur innan meirihlutans mun endurspeglast í auknum áherslum í takt við okkar stefnu,“ segir Dóra Björt, innt eftir því hvaða kröfur flokkurinn muni gera verði aukið fylgi Pírata til þess að halda lífi í núverandi meirihlutasamstarfi.

Hún segist gera sér grein fyrir því að mælingar séu ekki alltaf í samræmi við lokaniðurstöðu kosninga og að sinn kjósendahópur sé að stórum hluta til ungur. Hún treystir sér ekki til að taka afstöðu til þess hvort hún muni gera tilkall til borgarstjórastólsins en segist þó vilja verða borgarstjóri.

Þéttingin ófrávíkjanleg krafa

Hún segir þéttingarstefnu Pírata vera mál sem ekki verði hægt að gefa eftir í meirihlutasamstarfi.

Hún útilokar eftir sem áður samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

„Við höfum útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn einfaldlega vegna þess að eitt af okkar helstu baráttumálum er barátta gegn spillingu. Sjálstæðisflokkurinn hefur ekki sýnt okkar kjósendum að hann sé traustsins verður. Þess vegna getum við ekki séð fyrir okkur að vinna með Sjálfstæðisflokknum, það snýst ekki um einhverja einstaklinga eða hver er góð manneskja, það snýst um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt sínum völdum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert