Segir könnun eigin blaðs lítt marktæka

Kolbrún Bergþórsdóttir er menningarritstjóri Fréttablaðsins.
Kolbrún Bergþórsdóttir er menningarritstjóri Fréttablaðsins. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Menningarritstjóri Fréttablaðsins setur fram gagnrýni á skoðanakönnun eigin blaðs í leiðara þess í dag. Skoðanakönnunin var birt fyrr í vikunni og sneri að fylgi flokka. Voru niðurstöður hennar býsna neikvæðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. 

Í leiðaranum segir Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, að flest bendi til þess að könnunin, sem Prósent framkvæmdi, hafi verið lítt marktæk. 

„Þetta þótti fín frétt í tíðindaleysi

„Skoðanakannanir eru ekki kosningaúrslit. Það var því nokkuð skondið að sjá hvernig fjölmiðlar slengdu því fram sem stórfrétt og leituðu til álitsgjafa þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 prósent í einni könnun - könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk,“ skrifar Kolbrún. 

„Þetta þótti fín frétt í tíðindaleysi, en það var líka margt ofstækisfullt fólk sem sá þarna draum sinn um fall Sjálfstæðisflokksins rætast.“

Kolbrún greinir ekki frá því að könnunin hafi birst í Fréttablaðinu en hún er eina könnunin sem kemur til greina þar sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur hvergi mælst með svo lágt fylgi fyrir komandi kosningar eða 16,2%, minna en Píratar. Könnunin birtist á forsíðu blaðsins og vakti nokkra athygli.

mbl.is