Skoðanir Kolbrúnar stundum skrýtnar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Sigmundur Ernir Rúnarsson

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir skoðanir Kolbrúnar Bergþórsdóttur stundum vera skrýtnar, en eigi fullan rétt á sér.

Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, sagði í leiðara sínum í Fréttablaðinu í dag að flest bendi til þess að skoðanakönnun sem birtist í blaðinu sé lítt marktæk. Í henni mældust Píratar með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.

Sigmundur segir í samtali við mbl.is að könnunin sé byggð á vísindalegum aðferðum fræðimanna á sínu sviði og er hann því ekki sammála Kolbrúnu. Hann segir gagnýni Kolbrúnar samt eiga rétt á sér.

 „Við þolum sjálfsgagnrýni, og sjálfsgagnrýni er mjög mikilvæg. Kolbrún hefur sínar skoðanir, stundum skrýtnar, en ég er tilbúinn að verja skoðanir sem eru ólíkar mér fram í fingurgóma. Skoðanafrelsi er eitt það mikilvægasta sem við búum við í samfélaginu,“ segir Sigmundur.

„Það síðasta sem maður gerir sem ritstjóri er að stjórna skoðunum annarra.“

Fjölmiðlar endurspegli heift þjóðfélagsins

Kolbrún segir í leiðara sínum lítið fara fyrir málefnum stjórnmálaflokkanna í þjóðfélagsumræðunni og að mikil heift og ofstæki sé í fólki. Hún gagnrýnir fjölmiðla fyrir að blása upp niðurstöður skoðanakönnunar og sagði í kjölfarið að margt ofstækisfullt fólk hafi séð draum sinn rætast um fall Sjálfstæðisflokksins rætast.

„Fjölmiðlar eru almennt ekki að taka afstöðu heldur að segja frá samfélaginu eins og það blasir við. Fjölmiðlar endurspegla því bæði samfélagið hvort sem það er heift í því eða það sé rólegt."

mbl.is