Vilja sjá 6 milljóna styrk endurskoðaðan

Frá Egilsstöðum sem staðsettir eru í sveitarfélaginu Múlaþingi.
Frá Egilsstöðum sem staðsettir eru í sveitarfélaginu Múlaþingi. mbl.is/Sigurður Bogi

Hópur foreldra á Egilsstöðum hefur skorað á Múlaþing að „endurskoða“ sex milljóna króna styrk vegna íþróttaverkefnis. Ein af ástæðunum fyrir því er sú að foreldrum finnst að áætlun um verkefnið, sem er ekki farið af stað, hafi verið keyrð í gegn án vitundar foreldra. Þeir telja að verkefnið muni leiða til þess að börn þeirra muni ekki standa jafnfætis öðrum börnum á landsvísu.

Yfirþjálfari yngri flokka í knattspyrnu hjá íþróttafélaginu Hetti sagði upp nýverið vegna verkefnisins.

Elvar Snær Kristjánsson, formaður fjölskylduráðs, segir í samtali við mbl.is að fjölskylduráð hafi ekki talið ástæðu til að afturkalla styrkinn sem þó hefur ekki verið greiddur út. Ráðinu hafi litist vel á verkefnið sem ber heitið „Allir með“ og miðar að því að börn í fyrsta til öðrum bekk fái að prófa fleiri íþróttir en ella.

„Grunnnálgunin að þessu er að fá fleiri börn til iðkunar og minnka brottfall,“ segir Elvar.

Foreldrarnir eru síður en svo sannfærðir um ágæti verkefnisins og segja í erindi sem þeir sendu Elvari og mbl.is hefur undir höndum að með verkefninu sé val barna og foreldra um tómstund tekið af þeim.

„Þrátt fyrir að flest börn hafi æft í þó nokkurn tíma og mótað sér skoðun á því hvaða tómstund þau vilja leggja stund á og áhugi þeirra liggur, þá er þessi möguleiki um val barns og foreldris ekki lengur til staðar, sem er bagalegt,“ segir í erindi foreldranna.

Telja 200 færri æfingar

Þeir benda á að verkefnið sé ekki unnið á landsvísu og telja að þess vegna muni börn þeirra dragast aftur úr börnum sem æfa íþróttir annars staðar á landinu.

„Hætta á að æfingar verði almenns eðlis en ekki teknískar innan áhugasviðs barnsins. Ef af verkefninu verður og börn sem eru í 1. og 2. bekk fá aðeins eina æfingu í viku í hverri grein þá fær hvert barn að æfa u.þ.b. 200 æfingum færri en það hefði annars fengið á þessu tveggja ára tímabili. Með verkefninu Allir með er barn að fá aðeins eina æfingu í viku í hverri grein. Barn í 2. bekk sem er sjö eða átta ára æfir þá t.d. fimleika jafn oft og þriggja ára barn. Eins og gefur að skilja er hreyfiþörf og geta þessa aldursbils mjög ólík. Val barnsins um hvaða íþrótt það vill iðka þarf að vera tekin af barninu,“ segir í erindinu.

„Með verkefninu er eins og áður sagði verið að skerða æfingartíma barna í þeirri íþrótt sem þau vilja iðka, þannig að börn fullnægja ekki æfingatíma sínum. Börn á þessum aldri mæta t.d. oft á stór mót í íþróttum þar sem þau mæta öðrum börnum sem hafa æft þrisvar í viku. Þá má einnig benda á að börn sem hafa aðeins áhuga á einni íþrótt fá aðeins eina æfingu alla vikuna. Við foreldrar gerum kröfu um að íþróttafélagið bjóða upp á sömu gæði æfinga hér eins og er gert annarsstaðar á landinu.“

Okkur leist vel á þetta verkefni“

Elvar bendir á að verkefninu sé stýrt af íþróttafélaginu Hetti, ekki fjölskylduráði.

„Okkur leist vel á þetta verkefni og styrktum það. Þar með endar aðkoma Múlaþings að verkefninu,“ segir Elvar.

Foreldrarnir telja aftur á móti að sveitarfélagið sé ábyrgt þar sem það hafi ákveðið að styrkja verkefnið. Telja foreldrarnir að sveitarfélagið geti stutt við bakið á barnafjölskyldum með öðrum hætti, til að mynda með hækkun tómstundastyrks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert