Búið að opna kjörstaði

Sveitarstjórnarkosningar hófust í morgun klukkan níu.
Sveitarstjórnarkosningar hófust í morgun klukkan níu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Örlög sveitarfélaganna ráðast í dag þegar landsmenn ganga til sveitarstjórnarkosninga. Kjörstaðir opnuðu á slaginu níu og verður flestum lokað klukkan 22 í kvöld.

Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, segir daginn leggjast vel í sig og hefur allt gengið að óskum framan af degi. Starfsmenn borgarinnar hafa unnið hörðum höndum síðustu mánuði að undirbúa kosningarnar og voru þeir mættir um klukkan sjö í morgun til að sjá til þess að allt yrði klappað og klárt fyrir kjósendur.

Starfsmenn borgarinnar hafa unnið hörðum höndum að því síðustu mánuði …
Starfsmenn borgarinnar hafa unnið hörðum höndum að því síðustu mánuði að undirbúa kosningarnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sem betur fer líka en nokkrir árisulir borgarbúar voru mættir fyrir opnun kjörstaða og biðu þar til klukkan sló níu til að geta greitt sitt atkvæði.

Sólin skín víða um land, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, og vonar Eva að góða veðrið hafi jákvæð áhrif á kjörsókn. Hún segir allan gang á því hvort fólk klæði sig upp fyrir tilefnið eður ei en alltaf sé gaman að sjá þegar fólk tekur kosningunum hátíðlega og hefur sig til.

Hægt er að nálgast upplýsingar um hvar maður á að kjósa inn á heimasíðu Þjóðskrár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert