„Fleiri fótboltavelli og ekkert heimanám“

Þorbergur og Orri voru kátir á kjörstað í morgun.
Þorbergur og Orri voru kátir á kjörstað í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir Orri Arnarsson og Þorbergur Orri Halldórsson hafa ekki náð kosningaaldri en mættu engu að síður á kjörstað upp á eigin spýtur í Frostaskjóli í vesturbæ Reykjavíkur í morgun. Strákarnir eru ellefu ára gamlir og segja kosningarnar spennandi.

Í dag fara sveitarstjórnarkosningar fram á landinu öllu.

Strákarnir spjölluðu stuttlega við mbl.is og sögðust alveg hafa áhuga á að kjósa sjálfir.

Hvað mynduð þið vilja sjá breytast í Vesturbænum?

„Fleiri fótboltavelli og ekkert heimanám,“ segja strákarnir sem spurðust fyrir um barnakosningu í Frostaskjóli.

„Það var samt upprunalega bara djók,“ segir Þorbergur.

„Við vorum bara forvitnir,“ segir Orri.

Langaði að sjá inn á kjörstað

Í nokkur ár hefur verið til umræðu að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár. Strákarnir segja aðspurðir að þeir séu heldur betur klárir í að kjósa þegar þeir ná 16 ára aldri, verði lækkun kosningaaldurs raunin.

„Við vorum bara að fara á fótboltaæfingu og sáum að það stóð kjörstaður hérna fyrir utan,“ segir Þorbergur um ástæðu þess að þeir létu sjá sig á kjörstað.

„Mig langaði bara að sjá þarna inn,“ segir Þorbergur.

„Já, mig líka,“ segir Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert