Kjörsókn í Hafnarfirði orðin meiri en 2018

Alls 11.005 höfðu mætt á kjörstað í Hafnarfirði þegar þegar þar voru teknar saman tölur á níunda tímanum í kvöld. Þetta staðfestir Hildur Helga Gísladóttir sem situr í kjörstjórn Hafnarfjarðarbæjar í samtali við mbl.is.

Stóð kjörsókn því í 50,64 prósentum þegar um tveir tímar voru enn til stefnu, rúmum tveimur prósentum hærra en heildarkjörsókn fyrir fyrir fjórum árum, í kosningunum 2018, sem þá var 48,5 prósent.

Raunar má vænta að heildarkjörsókn sé töluvert hærri. Utankjörfundaratkvæði, sem ekki hafa verið tekin saman við kjörfundaratkvæði, voru um 1.600 sem gerir heildarkjörsókn nálægt 58 prósentum.

Kjörkassar skulfu er kosið var á Völlunum í fyrsta skipti

Í fyrsta skipti var kosið á Völlunum í Hafnarfirði en sá kjörstaður sem áður hefur verið í Víðistaðaskóla var færður þangað í ár. Hildur segir aðstöðuna á Völlunum mun betri. Þá sé stemningin á kjörstað góð.

„Flokkunarmenn hafa sungið hér fyrir okkur. Það er gott veður og stöðugur straumur af fólki,“ segir hún og bætti við að fólk væri einnig spennt fyrir Eurovision.

Þá setti jarðskjálftinn sinn svip á daginn en jörð skalf þegar þau voru að skipta um kjörkassa. Hildur segir að hver hefði sínar skoðanir um dulda meiningu skjálftans, hvort hann væri jafnvel fyrirboði um úrslit kosninganna.

„Það eru átta flokkar í framboði. Fólk var ekki sammála um hvað [skjálftinn] þýddi.“

Fréttin var uppfærð þegar frekari tölur bárust á níunda tímanum.

mbl.is