Tekur örlögunum sama hver þau verða

Líf Magneudóttir var í góðu skapi þegar hún gekk á …
Líf Magneudóttir var í góðu skapi þegar hún gekk á kjörstað í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, segir að hún sé alltaf með fiðring í maganum fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þrátt fyrir að flokkurinn hafi komið illa út úr Þjóðarpúlsi Gallup segist hún „treysta kjósendum að velja til vinstri“ vilji þeir rödd náttúrunnar í borgarstjórn.

„Ég er bara vel stemmd. Við vorum með afar góða kosningabaráttu og það var hugur í fólki. Ótrúlega mikið af eldhugum og öflugu fólki sem brennur fyrir málstaðinn og lagði mikið á sig,“ sagði Líf í samtali við mbl.is rétt áður en hún greiddi sitt atkvæði í morgun.

„Það var mikil gleði hjá okkur Stefáni [Pálssyni sem er í öðru sæti listans] og Elínu [Björk Jónsdóttur sem skipar þriðja sætið]. Við ákváðum að gera svona fyndin myndbönd í stað þess að vera með einhverja ímyndarsköpun vegna þess að við komum bara til dyranna eins og við erum klædd. Það fór misvel ofan í fólk en mestmegnis ánægja,“ segir Líf.

„Ég treysti kjósendum að velja til vinstri og velja vinstri græn ef þau vilja fá rödd náttúrunnar og loftslagsmála og umhverfismála í borgarstjórn.“

„Glasið hjá mér er alltaf stútfullt“

Niðurstöður þjóðarpúls Gallup sem gefnar voru út í gær benda til þess að Líf nái ekki inn í borgarstjórn. Vert er að nefna að könnun Maskínu benti til þess að Líf myndi halda sínu sæti. Spurð hvort hún sé stressuð um að missa sæti sitt í borgarstjórn segir Líf:

 „Glasið hjá mér  er alltaf stútfullt þannig að sama hvað gerist tek ég þeim örlögum og það opnast þá bara nýjar dyr en við skulum ekki gefa upp vonina áður en farið er að telja upp úr kössunum.“

Þannig að þú ert ekki með neitt plan B?

„Það er alltaf gott að vera með plan A, B og C í pólitík. Annað hvort tekur þú ákvörðun sjálf um að bjóða þig ekki fram eða  einhver tekur hana fyrir þig. Við erum alltaf með plön,“ segir Líf.

„Það er líka hollt fyrir mann að muna hvað er undir og hvers maður er megnugur. Við höfum komið svo ótrúlega mörgu í verk á þessu kjörtímabili, sérstaklega fyrir tilstuðlan vinstri grænna. Það væru veruleg vonbrigði að missa okkar rödd úr borgarstjórn og afar vont fyrir borgarbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert