Þurftu að sverja af sér „daður“

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar og Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar og Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar. Samsett mynd

„Við munum ekki undirgangast stefnu Samfylkingarinnar í neinu meirihlutasamstarfi sem að við förum í,“ sagði Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík, inntur eftir svörum um hvort að hann og Framsókn myndu bjarga núverandi meirihlutasamstarfi, falli hann, í oddvitakappræðum á RÚV í kvöld. 

Áður hafði Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fullyrt að Einar og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar væru að „daðra“ við hvorn annan um meirihlutasamstarf. 

Því neituðu þeir báðir og Dagur hefur áður sagt að hans fyrsti valkostur verði áframhaldandi meirihlutasamtarf, haldi það. 

Styður Borgarlínu – „Ekkert en“

„Einar, þú hefur sagt að þið styðjið Borgarlínu – en...“ sagði Þóra Arnórsdóttir, spyrill þáttarins, og gaf Einari orðið. 

„Nei, ekkert en,“ svaraði Einar. Hann sagði Borgarlínu enn í hönnun og að hönnunin verði að virka. 

„Þessi meirihluti, sem nú er við völd, ég held að hann hefði mjög gott af því að fá fersk augu inn í þessa vinnu,“ bætti hann svo við. Hægt er að túlka ummæli Einars sem svo að hann sé tilbúinn að koma að vinnunni í meirihlutasamstarfi.

mbl.is