„Viðrar vel til breytinga í borginni“

Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík var ekki lengi að …
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík var ekki lengi að athafna sig inn í kjörklefanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík var ekki lengi að athafna sig inn í kjörklefa þegar hann greiddi atkvæði sitt í Ölduselsskóla fyrir sveitarstjórnarkosningarnar fyrr í dag. Hann segir ákvörðunina ekki hafa flækst fyrir sér en valið sé þó ekki jafn skýrt þegar kemur að atkvæðagreiðslunni í Eurovision í kvöld. 

Hann segir daginn leggjast vel í sig og að heilagt kvöld sé framundan, enda eru bæði söngvakeppnin og kosningarnar í miklu eftirlæti hjá framsóknarmanninum.

„Það viðrar vel til breytinga í borginni. Það er gaman að finna kraftinn. Fólk hefur gaman af því að taka þátt í kosningum og það er alltaf góð stemning á kjörstað. Það er gaman að koma hingað og nýta atkvæðisréttinn sinn. Ég hvet alla til þess að kjósa og að sjálfsögðu að kjósa Framsóknarflokkinn,“ segir Einar þegar blaðamaður náði tali af honum fyrir utan kjörstað.

Baráttan ekki búin

Samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallups mælist hefur fylgi Framsóknarflokksins í Reykjavík tekið mikið stökk síðustu vikur og mælist nú í 17,5%. Er það jafnframt mikið stökk frá síðustu kosningum þegar Framsókn mistókst að fá fulltrúa í borgarstjórn.

Einari lýst ágætlega á niðurstöðurnar en segir þó baráttuna ekki búna fyrr en kjörstaðir loka klukkan 22 í kvöld.

„Það er gríðarlega mikilvægt að fólk átti sig á því að kannanir hafa aldrei komið neinum til áhrifa. Það er það sem kemur upp úr kjörkössunum sem skiptir máli og þetta verður mjög tæpt, hvert einasta atkvæði skiptir máli. Þannig ef menn vilja knýja fram breytingar í Reykjavík þá verða þeir að mæta á kjörstað,“ segir Einar.

„Það þýðir ekki að halla sér aftur og halda að þetta sé bara komið. Við ætlum ekki að gera það. Við ætlum að halda áfram baráttunni fram til tíu í kvöld. Það er allt undir í dag.“

Einar Þorsteinsson og Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, mæta á …
Einar Þorsteinsson og Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, mæta á kjörstað í morgun. Þau eru nýbakaðir foreldrar og kom drengurinn að sjálfsögðu með á kjörstað klæddur Framsóknar-samfellu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihlutanum mistekist tvö ár í röð

Húsnæðismál voru veigamikil í umræðunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar enda flestir flokkar á sama máli um að mikilvægt sé að rétta úr þeirri stöðu sem blasir við.

Að sögn Einars hefur meirihlutanum mistekist að leysa þetta vandamál tvö kjörtímabíl í röð og er þörf breytingum. 

„Meirihlutinn féll í síðustu kosningum vegna húsnæðismálanna. Hann er tæpur á því að falla núna aftur vegna húsnæðismálanna og ég held að borgarbúar séu búnir að átta sig á því að það þarf nýtt fólk með önnur sjónarhorn á það hvernig hægt er að leysa þetta. Við munum tala fyrir samvinnu og erum tilbúin að leysa þetta með öðrum í góðu samstarfi en það þarf rækilega að setja þessi mál á dagskrá, byggja hraðar, fjölbreyttara og meira.“

Ganga óbundin til kosninga

Í kappræðum á Rúv í gær gaf Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í skyn um að Einar og oddviti Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri væru að daðra við hvorn annan. Gaf hún í skyn að þeir væru að ræða milli sín samstarf flokkanna.

Einar vísar því á bug og segir ekkert til í því. 

„Við höfum lýst því yfir mjög skýrt að við göngum óbundin til kosninga. Við heyrum það líka frá Degi og þeim sem eru meirihlutanum að ef meirihlutinn ehldur þá ætla þau að halda áfram. Þá vita kjósendur hvað þau fá, þau fá fjögur ár af sömu stefnu sem hefur ekki skilað árangri. Ef þau vilja breytingar, þá kjósa þau Framsókn því við erum líklegust til þess að geta knúið þær fram.“

Spenntur fyrir Eurovision

Kvöldið er þó ekki bara spennandi vegna kosninganna, að sögn Einars, þar sem Eurovision er líka framundan. Er hann bjartsýnn á að Íslandi muni ganga vel en hann hefur þó ekki enn ákveðið hvaða land mun fá atkvæði hans. Hann ætlar þó að kynna sér lögin betur á eftir til að geta tekið upplýsta ákvörðun.

„Ég er mikill Eurovision-maður, þetta er heilagt kvöld. Nú eru Eurovision og kosningar, þetta er það tvennt sem mér þykir einna skemmtilegasta í lífinu. Ég vona að þær vinni, ég er barnslega bjartsýnn alltaf á íslensku lögin, ég held við verðum í topp fimm. Bara hlakka til.“

mbl.is