Kemur í ljós hvort borgarstjórasetunni sé lokið

Dagur B. Eggertsson hefur setið í sæti borgarstjóra síðustu átta …
Dagur B. Eggertsson hefur setið í sæti borgarstjóra síðustu átta ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það verði að fá að koma í ljós hvort hans borgarstjóraferli sé lokið. Hann ætlar sér ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum en útilokar ekki meirihlutasamstarf við aðra flokka.

„Ég hef talað fyrir mjög skýrum áherslum og framtíðarsýn í borginni og ekki deilt henni með Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Dagur í Silfrinu í morgun.  

Fylgi Samfylkingarinnar dróst saman í sveitarstjórnarkosningunum í gær, samanborið við fylgið árið 2018. Tapaði flokkurinn tveimur mönnum og féll meirihlutinn fyrir vikið.

„Við hefðum viljað sjötta manninn og að meirihlutinn myndi halda, ég neita því ekki,“ sagði Dagur.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fara opin inn í samtalið

Þegar hann var spurður hvort borgarstjóraferli hans væri lokið sagði hann:

„Það verður eiginlega bara að koma í ljós. Við vitum að þegar borgarbúar voru spurðir vildi langstærsti hlutinn að ég yrði áfram en sveitarstjórnarkosningar á Íslandi og borgarstjórnarkosningar ganga ekki þannig fyrir sig. Þar eru flokkar valdir inn og borgarfulltrúar. Nú er það í okkar höndum að ná saman um lykilmálin til þess að mynda starfhæfan og góðan meirihluta og síðan skipta verkum.“

Í Silfrinu sagði Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, að flokkurinn færi opinn inn í samtal um meirihlutasamtalið sem framundan er. Framsókn bætti verulega við sig í kosningunum og fékk fjóra kjörna fulltrúa.

„Við tökum því mjög alvarlega að fara opin inn í þetta samtal sem er núna framundan – að reyna að mynda meirihluta. Við spurðum borgarbúa fyrir þessar kosningar hvort það væri kominn tími til að breyta. Ég held að borgarbúar hafi svarað því mjög afdráttarlaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert