Mörgum Sjálfstæðismönnum litist betur á Framsókn

Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í Reykjavík og Hildur Björnsdóttir oddviti …
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í Reykjavík og Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir mörg svör vera við sögulegu tapi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Eitt þeirra sé stórsigur Framsóknar og að fjölmörgum fyrrum kjósendum Sjálfstæðisflokksins hafi litist betur á Framsóknarflokkinn.

Framsókn fékk 18,7% atkvæða í kosningunum í gær en árið 2018 fékk flokkurinn aðeins 3,2% og náði ekki inn borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hins vegar 30,8% í borgarstjórnarkosningum 2018 en nú aðeins 24,5% og missir tvo borgarfulltrúa.

Eiríkur bendir einnig á að atkvæðin séu einfaldlega að dreifast á fleiri flokka og framboð heldur en áður hefur verið. Allir flokkar eru að sjá lægri tölur heldur en á þeim árum þegar atkvæðin voru að skiptast á fjóra flokka.

Reykjavík ekki lengur höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins

„Í öðru lagi að þá er Reykjavíkurborg ekki lengur þetta höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins sem það var einu sinni. Það er bara sú breyting hefur orðið. Það er ekkert hægt að líta framhjá því að þetta eru að verða núna 30 ár frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þá yfirburðastöðu sem að hann eitt sinn hafði í Reykjavík. Það er bara orðin varanleg breyting,“ segir Eiríkur.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Loks hafi framboð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ekki verið mjög samstillt að sögn Eiríks.

„Það valdist inn á listann fólk sem að hafði fyrirfram ekki líst mjög svona samrýmanlegri stefnu. Hann svona stefndi ekki allur í sömu átt. Það gerði það að verkum að framboðið var kannski ekki eins skýrt og annars hefði verið.“

Framsókn mildast í ásýnd

Eiríkur segir gott gengi Framsóknar einfaldlega að stærstum hluta vera áframhald á þeim mikla meðbyr sem að flokkurinn fékk í aðdraganda alþingiskosninga og nær út um allt land.

„Mér sýnist Framsóknarflokkurinn vera að fá í Reykjavík svipað fylgi og Framsóknarflokkurinn er að fá annars staðar á landinu í þessum kosningum,“ segir Eiríkur og bætir við: „Í því eru fréttir.“

Eiríkur bendir á að Framsókn hafi líka gengið vel á höfuðborgarsvæðinu í þingkosningunum síðasta haust. Því hafi orðið veruleg ásýndarbreyting á umliðnum misserum og að flokkurinn hafi mildast mikið í ásýnd.

„Það sem hann hefur gert er að stilla sér upp sem valkosti þeirra sem eru þreyttir á átakameiningu í stjórnmálum og það bara einhvern veginn höfðar til fólks,“ segir Eiríkur.

Framsókn „gjörsigrað“ Miðflokkinn

Auk gengis Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins segir Eiríkur afhroð Miðflokksins áhugavert. Ekki sé langt síðan við stóðum frammi fyrir einvígi milli Miðflokksins og Framsóknar sem sem að hefði getað farið á hvorn veginn sem er.

„Nú hefur Framsóknarflokkurinn bara gjörsigrað það einvægi og Miðflokkurinn situr eftir í tætlum og maður sér bara ekki hvernig hann á að öðlast fyrri styrk í íslenskum stjórnmálum.“

Hvað varðar niðurstöður um gengi Vinstri grænna segir Eiríkur að það hljóti að vera erfitt fyrir forsætisráðherrann að horfa fram í þá staðreynd að Vinstri grænir eru að koma laskaðir út úr þessum kosningum.

Þá er að mati Eiríks mjög áhugavert hvað Píratar halda ótrúlegu fylgi að flokkur af þessari tegund lifi svona ótrúlega vel í íslenskum stjórnmálum. „Þetta er bara afrek sem Píratar hafi unnið. Bæta við sig og ekki bara í Reykjavík, heldur eru að koma sér fyrir alls staðar.“

Einar og Milla Ósk Magnúsdóttir eiginkona hans voru ansi ánægð …
Einar og Milla Ósk Magnúsdóttir eiginkona hans voru ansi ánægð með gengi Framsóknar í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert