Örfáir fulltrúar undir þrítugu í sveitarstjórnum

Frá vinstri, að ofan: Thelma Dögg Harðardóttir (VG), Andri Steinn …
Frá vinstri, að ofan: Thelma Dögg Harðardóttir (VG), Andri Steinn Hilmarsson (Sjálfsstæðisflokknum), Trausti Breiðfjörð Magnússon (Sósíalistum) og Magnea Gná Jóhannsdóttir (Framsókn).

Ekki er hægt að segja að frambjóðendur undir þrítugu skipi stóran sess í sveitarstjórnum landsins eftir kosningar gærdagsins. Alls eru þeir sjö talsins í 22 stærstu sveitarfélögum landsins.

Í Reykjavík eru fulltrúar undir þrítugu tveir talsins, annars vegar hann Trausti Breiðfjörð Magnússon, sem er annar fulltrúi sósíalista í borgarstjórn, og hins vegar hún Magnea Gná Jóhannsdóttir, sem skipar þriðja sæti Framsóknarflokksins. Hún er yngsti borgarfulltrúi sögunnar en hún sló met Sönnu Magdalenu Mörtudóttur í gær þegar hún var kosin inn í borgarstjórn.

Aldrei fleiri en einn í hverri stjórn

Nokkrir fulltrúar eru undir þrítugu í stærstu sveitarfélögunum á landsbyggðinni, en þó aldrei fleiri en einn í hverri bæjar- eða sveitarstjórn.

Í Múlaþingi er það hún Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna, sem er fulltrúi unga fólksins, 28 ára að aldri. Skipar hún annað sæti framboðslista flokksins.

Úrsúla María Guðjónsdóttir, sem einnig er 28 ára, skipar sæti í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, fyrir hönd Framsóknarflokksins. Er hún í öðru sæti á lista þeirra.

Þá er Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, yngsti maður í bæjarstjórn Kópavogs eftir úrslit gærdagsins, 28 ára að aldri. 

Sá yngsti 24 ára

Yngsti kjörni fulltrúinn í stærstu sveitarfélögum landsins, er hann Sveinn Ægir Birgisson, sveitarstjórnarfulltrúi í Árborg, en hann er fæddur í febrúar 1998 og er því 24 ára. Hann skipar fjórða sæti á lista sjálfstæðismanna.

Að lokum er það Thelma Dögg Harðardóttir sem er yngsti sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð en hún er oddviti Vinstri grænna, aðeins 26 ára að aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert